Erlent

Bróðir samfélagsmiðlastjörnu dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á henni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Qandeel Baloch naut mikilla vinsælda í heimalandi sínu, Pakistan.
Qandeel Baloch naut mikilla vinsælda í heimalandi sínu, Pakistan. Vísir/Getty
Bróðir pakistönsku samfélagsmiðlastjörnunnar Qandeel Baloch var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á systur sinni. Málið hefur vakið mikinn óhug í Pakistan og víðar.

Baloch var 26 ára þegar hún fannst látin á heimili sínu í grennd við borgina Multan í Pakistan árið 2016. Henni hafði verið byrluð ólyfjan og hún svo kyrkt til bana. Morðið var framið skömmu eftir að Baloch birti djarfar myndir af sér á Facebook með Mufti Abdul Quawi, þekktum íslömskum klerki.

Mohammed Wasim Azeem, bróðir Baloch, var handtekinn og játaði strax á sig verknaðinn. Hann lýsti því yfir að hann sæi ekki eftir neinu og hefði „að sjálfsögðu“ myrt hana. Þá hefði hegðun systur hans verið „óþolandi“.

Klerkurinn Quawi var handtekinn grunaður um aðild að morðinu en faðir Bolach og Azeem kenndi honum um að hafa hvatt til voðaverksins. Quawi var sýknaður af ákærum í tengslum við málið í dag ásamt þremur öðrum mönnum.

Bolach ólst upp við mikla fátækt og síðar gróft heimilisofbeldi af hendi eiginmanns síns, sem hún náði þó að flýja. Hún naut töluverðra vinsælda á samfélagsmiðlum í Pakistan fyrir ögrandi myndir og myndbönd, þar sem til dæmis mátti sjá hana stunda líkamsrækt eða fáklædda í sundlaug. Hún starfaði einnig sem fyrirsæta og mætti oft í viðtöl í sjónvarpi.

Í frétt Guardian um málið segir að nær þúsund pakistanskar konur séu myrtar af náskyldum fjölskyldumeðlimi á ári hverju. Um er að ræða svokölluð „heiðursmorð“ (e. honor killings) sem töluvert hefur verið fjallað um síðustu misseri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×