Erlent

Játuðu á sig morðin áður en þeir sviptu sig lífi

Kjartan Kjartansson skrifar
Mennirnir tveir sem lýst var eftir í sumar vegna þriggja morða.
Mennirnir tveir sem lýst var eftir í sumar vegna þriggja morða. Kanadíska riddaralögreglan
Tveir táningar sem voru á flótta undan lögreglu í Kanada skildu eftir sig myndband þar sem þeir játuðu á sig þrjú morð áður en þeir sviptu sig lífi. Kanadíska lögreglan segist þó vera engu nær um hvað þeim gekk til með morðunum.

Mál táninganna tveggja sem voru átján og nítján ára gamlir vakti mikla athygli. Leitað var að þeim um allt Kanada eftir að þrír voru myrtir í norðanverðri Bresku Kólumbíu í júlí. Piltarnir tveir fundust svo látnir í skóglendi í Manitoba, um 3.300 kílómetrum frá vettvangi morðanna, 7. ágúst.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir kanadísku riddaralögreglunni að myndbönd og myndir hafi fundist á myndavél nærri líkum piltanna. Í því fyrsta viðurkennir annar þeirra að þeir hafi myrt fólkið. Þeir tala svo um áform um að ræna bát til að flýja til Evrópu eða Afríku.

Í öðru myndbandi segir annar þeirra að þeir hafi komið að straumþungri á og að þeir gætu þurft að svipta sig lífi. Ítreka þeir að þeir hafi framið morðin án þess þó að lýsa neinni eftirsjá. Í enn öðru myndbandi segjast þeir ætla að drepa fleira fólk.

„Morðin virðast hafa verið handahófskennd og tækifærisglæpir,“ sagði Kevin Hackett, aðstoðarlögreglustjóri riddaralögreglunnar á blaðamannafundi.

Tvímenningarnir voru frá Vancouver-eyju en voru á leið til Júkon þegar þeirra var saknað um miðjan júlí. Leit hófst að þeim eftir að lík kærustupars á þrítugsaldri og kanadísks grasafræðings á sjötugsaldri fundust. Fólkið var allt skotið til bana í norðurhluta Bresku Kólumbíu.


Tengdar fréttir

Uggandi yfir mögulegri tengingu milli morðanna

Lögregla í Kanada rannsakar nú þrjú grunsamleg dauðsföll og tvö mannshvörf í British Columbia en síðast sást til allra hlutaðeigandi við afskekktan þjóðveg.

Táningar taldir hafa myrt par á ferða­lagi í Kanada

Tveir kanadískir unglingar sem taldir eru vera á flótta eru nú grunaðir um að hafa myrt par á þrítugsaldri en lík þeirra fundust við afskekktan þjóðveg á mánudaginn í síðustu viku í Bresku Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×