Erlent

Varakanslari Austurríkis segir af sér vegna ásakana um spillingu

Andri Eysteinsson skrifar
Heinz-Christian Strache, vara-kanslari Austurríkis hefur sagt af sér embætti varakanslara
Heinz-Christian Strache, vara-kanslari Austurríkis hefur sagt af sér embætti varakanslara Getty/Anadolu
Heinz-Christian Strache, vara-kanslari Austurríkis hefur sagt af sér embætti varakanslara og embætti leiðtoga eftir að myndband komst í dreifingu þar sem hann virðist bjóðast til þess að semja við rússneska konu gegn því að hún komi boðskap frelsisflokksins á framfæri í austurrískum fjölmiðlinum Kronen-Zeitung. CNN greinir frá.

Myndbandið var birt í gær af þýsku miðlunum Der Spiegel og Süddeutsche Zeitung og var tekið upp á Ibiza skömmu fyrir austurrísku kosningarnar 2017.

Strache sést á myndbandinu bjóða konunni, sem sagðist vera rússneskur fjárfestir, ríkissamninga ef hún keypti helmingshlut í austurríska dagblaðinu Kronen-Zeitung og notaði það til að koma Frelsisflokknum á framfæri.

Strache greindi frá því á blaðamannafundi í dag að hann hygðist segja af sér vegna málsins, þó hann hafi ekki brotið lög með framferði sínu.

Strache játaði að hafa hitt konuna og sagðist hafa verið ölvaður og það hafi ýtt undir yfirlýsingagleði hans, rússneska konan hafi ekki lagt neitt til flokksins í kjölfar fundsins. Strache sagði af sér og bað eiginkonu sína afsökunar á að hafa sært hana.

Kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz er sagður hafa samþykkt afsögn Strache en búist er víð því að forsetaframbjóðandinn fyrrverandi, Norbert Hofer muni taka við embætti Strache innan Frelsisflokksins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.