Íslenski boltinn

Atli Eðvaldsson borinn til grafar í dag: „Fyrst og fremst mannvinur hinn mesti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kista Atla borinn út úr Hallgrímskirkju í dag. Meðal kistubera voru sonur hans Egill Atlason og Guðmundur Hreiðarsson markvörður og vinur Atla.
Kista Atla borinn út úr Hallgrímskirkju í dag. Meðal kistubera voru sonur hans Egill Atlason og Guðmundur Hreiðarsson markvörður og vinur Atla. vísir/vilhelm
Atli Eðvaldsson, einn af bestu sonum íslenskrar knattspyrnu, var borinn til grafar í dag. Útförin fór fram í Hallgrímskirkju að viðstöddu fjölmenni. Atli lést 2. september, 62 ára að aldri, eftir baráttu við krabbamein.

Atli átti langan og farsælan feril sem leikmaður og þjálfari. Hann lék 70 landsleiki á árunum 1976-81 og skoraði átta mörk. Hann var fyrirliði í 31 landsleik og átti um tíma leikjamet íslenska landsliðsins.

Atli lék með Val, KR og HK hér á landi, Borussia Dortmund, Fortuna Düsseldorf, Bayer Uerdingen og TuRU Düsseldorf í Þýskalandi og Genclerbirligi í Tyrklandi.

Atli sneri sér síðan að þjálfun. Hann þjálfaði HK, ÍBV og Fylki áður en hann tók við KR. Hann gerði KR-inga að Íslands- og bikarmeisturum á 100 ára afmælisári félagsins 1999. Í gær voru nákvæmlega 20 ár síðan 31 árs bið KR eftir Íslandsmeistaratitlinum lauk.

Eftir tímabilið 1999 tók Atli við íslenska karlalandsliðinu og þjálfaði það í fjögur ár. Hann þjálfaði seinna Þrótt R., Val, Reyni S., Aftureldingu og Hamar hér heima og Kristianstad í Svíþjóð.

Alltaf með leikplanMinningargreinarnar um Atla fylla þrjár síður í Morgunblaðinu í dag.

Meðal þeirra sem skrifa eftirmæli um Atla er Guðmundur Hreiðarsson. Hann rifjar m.a. upp frægan leik Íslands og Sovétríkjanna 1988, sem endaði með 1-1 jafntefli, og hvernig Atli stappaði stálinu í samherja sína fyrir leikinn í Moskvu.

„Mér er minnisstætt þegar við spiluðum í Rússlandi í undankeppni HM. Stutt var í leik og þú varst að tala við leikmenn á þinn sérstaka hátt sem fyrirliði Íslands, hvernig við ætluðum sem lið að spila leikinn. Þjálfari Íslands, Siegfried Held, forðaði sér út úr klefanum. Þú varst með leikplanið á hreinu, það voru allir að fara að róa í sömu átt, rödd þjálfarans var ekki þörf á þessu augnabliki, þú varst með þetta. Við náðum sögulegum úrslitum, 1-1,“ skrifar Guðmundur.

Guðmundur segir að Atli hafi sýnt mikinn styrk í veikindum sínum.

„Fyrir um þremur árum bankaði vágestur að dyrum hjá þér. Þú settir upp game plan og byrjaðir á lausninni, hvernig þú ætlaðir að sigra þennan leik. Þú tókst töflufund með mér um hvernig þú varst búinn að hugsa þetta og vildir fara þínar leiðir, sem og þú gerðir.

„Það var aðdáunarvert að fylgjast með þínu plani, hvernig þú fylgdir þínu skipulagi eftir alla leið. Það voru forréttindi að fá að fylgjast með þér frá hliðarlínunni og sjá þig stjórna leiknum. Þú lést ekkert stoppa þig. Þú vannst þetta þriggja ára mót nánast alla leiki. Því miður tapaðist síðasti leikurinn, þú gafst allt í leikinn, skildir allt eftir á vellinum, miklu meira en hægt var að ætlast til.

„Þú sagðir skilið við þitt síðasta verkefni þannig, að við sem eftir sitjum, skiljum ekki hvernig þér tókst þetta allt.“

Risastór persónuleiki og maður fólksinsÞorgrímur Þráinsson stingur einnig niður penna og minnist Atla en þeir léku saman í Val og íslenska landsliðinu.

„Atli Eðvaldsson var risastór persónuleiki, þjóðareign á tímabili, maður fólksins. Hetja! Hver annar gæti skorað fimm mörk í einum og sama leiknum í Bundesligunni, flogið heim korteri seinna og skorað sigurmark Íslands á Laugardalsvellinum? Sex mörk á rúmum sólarhring í júní árið 1983. Atli gerði allt með bros á vör, 100% einbeittur og með keppnishörkuna að leiðarljósi. Sannur fyrirliði utan vallar sem innan, reif eða hreif menn í gang ef þess þurfti með,“ skrifar Þorgrímur.

„Afreksskrá Atla var skrifuð í skýin því það sem hann tók sér fyrir hendur varð að gulli. Hann gerði KR að Íslandsmeisturum eftir 31 árs bið, lagði grunninn að titlum ÍBV, spilaði 70 landsleiki, var fyrirliði og síðar landsliðsþjálfari. En Atli var fyrst og fremst mannvinur hinn mesti og snerti hjartastrengi fjölda einstaklinga með væntumþykju og kærleika.“

Talaði svo mikið að hann hafði varla fyrir því að andaSkotinn David Winnie, sem Atli þjálfaði í KR á árunum 1998-99, minnist hann skemmtilega.

„Nú kveð ég góðan félaga eftir rúmlega tveggja áratuga vináttu. Það var árið 1998 sem ég hitti Atla, þegar hann sótti mig upp á Keflavíkurflugvöll. Ég var þarna mættur til að leggja mitt af mörkum fyrir KR og Atla, sem þá var þar við stjórnina.

„Það var varla að hann hefði fyrir því að anda, svo mikið talaði hann meðan hann ók eftir Reykjanesbrautinni. Um fallega, yndislega Ísland, sögur úr fótboltanum og svo fleiri sögur úr boltanum. Ég bjóst við að vera skutlað beint upp á hótel, að fá að ná aðeins áttum í nýju landi, en Atli hafði um það aðrar hugmyndir. Hann ók rakleiðis niður í miðbæ, lagði bílnum fyrir framan forláta skúr og keypti handa mér pylsu – „Bæjarins bestu“ sagði hann mér, „þjóðarréttur Íslendinga“. Þetta setti tóninn að vináttunni. Það þurfti aldrei nein flottheit, galdurinn fólst í einfaldleikanum. Samverunni. Samræðunum. Fótboltanum.“

Winnie segist eiga Atla mikið að þakka og hann hafi haft mikil áhrif á líf sitt.

„Undir stjórn Atla unnum við KR-ingar þrjá titla, og ég var valinn leikmaður ársins 1998. En þessir titlar falla alveg í skuggann af þeim áhrifum sem Atli hafði á mig persónulega. Ef hans hefði ekki notið við hefði ég líklega aldrei komið til Íslands, og ég hefði þá líklega aldrei hitt konuna mína eða eignast strákana mína. Ég hefði líklega ekki farið í frekara nám og hefði ekki verið á þeirri braut sem ég er á núna. Ég á Atla margt að þakka. Og þá einna helst vináttu sem var alltaf byggð á einlægni, tryggð og virðingu.“


Tengdar fréttir

Atli Eðvaldsson látinn

Atli Eðvaldsson er látinn eftir hetjulega baráttu við krabbamein en Atli féll frá í dag.

Atli tók mig strax undir sinn verndarvæng

Oliver Bierhoff, yfirmaður knattspyrnumála hjá þýska knattspyrnusambandinu og fyrrverandi landsliðsframherji Þýskalands, fór fögrum orðum um Atla Eðvaldsson.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.