Umfjöllun og viðtöl: KA 1-1 HK | Dramatískt jafntefli á Akureyri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
HK-ingar sóttu stig til Akureyrar
HK-ingar sóttu stig til Akureyrar vísir/bára
KA fékk HK í heimsókn í 20.umferð Pepsi-Max deildar karla á Akureyri í dag en bæði lið sigla nokkuð lygnan sjó í deildinni þó stutt sé í báða enda fyrir bæði lið.HK-ingar fengu fyrsta færi dagsins þegar Bjarni Gunnarsson komst í gegn en skot hans slakt og framhjá markinu. Í kjölfarið tóku KA-menn öll völd á vellinum og voru mun betri aðilinn fyrsta hálftímann. Á sjöundu mínútu skoraði Ásgeir Sigurgeirsson og kom heimamönnum í forystu. Markið kom í kjölfar á hornspyrnu Hallgríms Mar. Boltinn féll fyrir fætur Ásgeirs nærri vítapunkti og hann tók boltann á lofti sem í kjölfarið söng í netinu.Hrannar Björn Steingrímsson og Almarr Ormarsson fengu báðir góð færi til að tvöfalda forystu KA en tókst ekki að nýta góð færi. Þegar leið á fyrri hálfleik tókst HK að færa lið sitt ofar á völlinn og ógnuðu þeir helst með fyrirgjöfum. Arnþór Ari Atlason fékk gott færi til að jafna leikinn á 39.mínútu en skalli Arnþórs laflaus og beint á Kristijan Jajalo í marki KA.Síðari hálfleikurinn var sömuleiðis nokkuð fjörugur þó hvorugt lið hafi verið að galopna vörn andstæðingsins.Hagur heimamanna vænkaðist hins vegar verulega þegar Björn Berg Bryde fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar 15 mínútur lifðu leiks.Strax í kjölfarið fékk Elfar Árni Aðalsteinsson kjörið tækifæri til að tvöfalda forystuna en Arnar Freyr Ólafsson varði frábærlega í marki HK og hélt þannig sínum mönnum inn í leiknum.Þrátt fyrir að vera manni færri náðu gestirnir að þjarma að heimamönnum á lokamínútunum og á 86.mínútu var Valgeir Valgeirsson nálægt því að jafna metin en Elfar Árni var réttur maður á réttum stað fyrir KA-menn og bjargaði á marklínu.Það voru svo komnar rúmar sex mínútur fram yfir venjulegan leiktíma þegar HK-ingar fengu hornspyrnu. Spyrnan var góð á nærsvæðið þar sem einir þrír HK-ingar réðust á boltann, þar á meðal Arnar Freyr markmaður. Boltinn fór hins vegar af Emil Atlasyni og framhjá Jajalo í marki KA. KA-menn tóku miðju og um leið flautaði Erlendur til leiksloka. Hádramatík.Afhverju varð jafntefli?HK-ingar neituðu að gefast upp og voru verðlaunaðir með jöfnunarmarki sem kom eftir að uppgefinn uppbótartími var liðinn. Gerist ekki meira svekkjandi fyrir KA-menn.KA-menn höfðu töluverða yfirburði í fyrri hálfleik og fengu þónokkur færi til að tvöfalda forystuna. Það kom harkalega í bakið á þeim.Bestu menn vallarins?Almarr Ormarsson var prímusmótorinn á miðju KA-manna. Elfar Árni Aðalsteinsson var virkilega öflugur í fremstu víglínu KA-manna og eina sem vantaði frá honum var að hann skyldi nýta færin sín.Þá komum við að besta manni HK sem var markvörðurinn Arnar Freyr Ólafsson. Varði frábærlega frá Elfari Árna á mikilvægu augnabliki og var heilt yfir góður. Ásgeir Marteinsson var líflegastur í sóknarleik HK.Hvað gekk illa?Setjum færanýtingu hingað. Leikurinn var mjög fjörugur en bæði mörkin koma eftir fast leikatriði. Hefðu sóknarmenn liðanna verið á sínum besta degi hefðum við fengið miklu fleiri mörk.Hvað er næst?KA heimsækir nýkrýnda bikarmeistara Víkings næstkomandi sunnudag í næstsíðustu umferð Pepsi-Max deildarinnar. Á sama tíma fá HK-ingar Skagamenn í heimsókn í Kórinn.

Brynjar Björn: Áttum skilið að jafna
Brynjar Björn var nokkuð sáttur með jafntefliðvísir/bára
„Þetta var það minnsta sem við áttum skilið út úr þessum leik. Við áttum skilið að jafna þetta. Við fáum klaufalegt mark á okkur. Eftir það fannst mér við vera með leikinn í hendi okkar. Við komumst í góðar stöður og spiluðum oft í gegnum KA vörnina. Okkur vantaði að klára sóknirnar almennilega,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, í leikslok.Brynjar viðurkennir að hafa verið farinn að lengja eftir jöfnunarmarkinu sem kom svo ekki fyrr en á 97.mínútu.„Við vorum búnir að fá það mikið af möguleikum sem við hefðum átt að nýta betur og maður fær ekki svoleiðis endalaust. Þannig að jú maður var farinn að ókyrrast aðeins en mér fannst við eiga þetta skilið.“KA hefði farið upp fyrir HK með sigri svo það var gríðarlega mikilvægt fyrir Kópavogsliðið að jafna metin. Brynjar segir það hafa verið mikilvægt um leið og hann viðurkenndi að Evrópudraumar HK væru líklega úr sögunni.„Í fyrsta lagi að við missum ekki KA fyrir ofan okkur. Það á eftir að spila alla aðra leiki í umferðinni svo við verðum bara að bíða og sjá. Eftir að FH tapaði í bikarúrslitum var það ljóst að 4.sætið gefur ekki Evrópusæti svo ég held að það verði erfitt fyrir okkur að ná því,“ segir Brynjar Björn.

Óli Stefán: Uppbótartíminn liðinn þegar þeir fá hornspyrnuna
Óli Stefán Flóventssonvísir/bára
„Gríðarlega svekkjandi. Þetta er síðasta spyrnan í leiknum. Þetta er ótrúlega fúlt. Ég horfi í þær stöður sem fóru forgörðum í leiknum. Þetta var ekki okkar besti leikur en mér fannst við fá stöður og færi sem við áttum að klára betur. Það er svo sannarlega dýrt núna,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, í leikslok.Margir KA-menn voru ósáttir við uppbótartíma Erlends dómara en komið var vel inn á sjöundu mínútu uppbótartíma þegar HK jafnaði metin eftir að fimm mínútum hafði upphaflega verið bætt við. Hvað fannst Óla Stefáni um uppbótartímann?„Hann spjaldar markmanninn minn fyrir töf. Það eru auka 30 sekúndur þar. Svo fer þetta mínútu yfir það. Ég veit ekki hvernig þetta er. Þarf hann að leyfa þeim að taka hornið? Uppbótartíminn er liðinn þegar þeir fá það. Ég þekki þetta ekki nógu vel. Þetta er svolítið týpiskt. Við höfum verið í neikvæðri dramatík í sumar en við verðum fyrst og fremst að horfa í það sem við gerum vitlaust,“ segir Óli Stefán sem kveðst ósáttur með hvernig KA-liðið nýtti sér liðsmuninn eftir að Birni Berg var vikið af velli.„Við vorum óskynsamir síðustu 10 mínúturnar, manni fleiri. Við vorum að setja boltann of snemma inn í teiginn í stað þess að halda í boltann og láta þá hlaupa. Það var samt kannski ekki það sem varð okkur að falli. Við fáum dauðafæri sem við þurfum að klára til að loka svona leikjum.“ Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.