Fótbolti

Neymar fékk óblíðar móttökur frá eigin stuðningsmönnum og svaraði með hjólhesti

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Stuðningsmenn PSG veita engan afslátt
Stuðningsmenn PSG veita engan afslátt vísir/getty
Brasilíska ofurstjarnan Neymar sneri aftur í lið frönsku meistaranna í PSG í gær þegar liðið vann 1-0 sigur á Strasbourg í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Óhætt er að segja að Neymar sé umdeildur í París um þessar mundir eftir framkomu sína gagnvart félaginu í sumar þegar hann reyndi allt hvað hann gat til að komast burt.

Stuðningsmenn PSG eru með þeim allra hörðustu í bransanum og þeir virðast ekki ætla að taka Neymar í sátt í bráð eins og mátti augljóslega sjá á Parc des Princes leikvangnum í gær. Fyrir leik héngu borðar með ljótum skilaboðum til Neymar og fjölskyldu hans á meðal PSG Ultras.

Þar á meðal voru skilaboð til föður Neymar að hann ætti að selja son sinn í Vila Mimosa sem er eitt alræmdasta vændishverfið í Rio de Janeiro, höfuðborg Brasilíu.

„20 milljónir evra til að fara til Messi. Við viljum ekki fleiri hórur í París,“ stóð á öðrum borða þar sem stuðningsmenn PSG vísa til þess að Neymar bauðst til að borga sjálfur 20 milljónir evra til að liðka fyrir félagaskiptum til Barcelona í sumar.

 

Svaraði með hjólhestaspyrnuÞó Neymar sé umdeildur meðal fótboltaáhugamanna efast líklega enginn um hæfileika kappans og hann svaraði svo sannarlega fyrir sig inn á vellinum í gær þar sem hann tryggði PSG 1-0 sigur með því að skora með hjólhestaspyrnu í uppbótartíma.

Neymar mætti svo í viðtöl eftir leik og kvartaði ekkert yfir móttökunum sem hann fékk á eigin heimavelli.

Þvert á móti sagðist hann gera sér grein fyrir því að það væri erfitt fyrir stuðningsmenn PSG að standa á bak við sig.

„Ég skil þessi viðbrögð og ég veit að þetta er erfitt fyrir þá. Ég hef engin sérstök skilaboð til þeirra. Ég er vanur því að það sé púað á mig. Nú er hver leikur fyrir mig eins og útileikur sem er synd því ég hef ekkert á móti stuðningsmönnum PSG,“ sagði Neymar meðal annars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×