Erlent

Hefur miklar á­hyggjur af aukinni spennu eftir á­rásirnar á olíu­lindir Sáda

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jens Stoltenberg er framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
Jens Stoltenberg er framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. vísir/getty
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), kveðst hafa miklar áhyggjur af aukinni spennu í Mið-Austurlöndum eftir loftárásirnar sem gerðar voru á olíulindir Sádi Arabíu um helgina.

Þá segir hann Írani valda óstöðugleika í heimshlutanum en fyrr í dag var greint frá því að Sádar telja að írönsk vopn hafi verið notuð hafi verið notuð við árásirnar. Írönsk stjórnvöld þvertaka fyrir aðild að árásunum og segja uppreisnarmenn Húta í Jemen hafa staðið að þeim.

Hútar, sem eiga í stríði við bandalagsher undir forystu Sáda í Jemen, hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum. Bandarísk yfirvöld hafa aftur á móti lýst efasemdum um að Hútar geti staðið fyrir árásum af slíkri stærðargráðu án aðstoðar að því er fram kemur á vef BBC.

„Við hvetjum alla aðila til þess að koma í veg fyrir að svona árásir endurtaki sig ekki því slíkt getur haft mjög neikvæðar afleiðingar fyrir allt svæðið. Þá höfum við einnig miklar áhyggjur af áhættunni af aukinni spennu,“ segir Stoltenberg.

Hútar hafa áður gert árásir á olíulindir Sáda en loftárásirnar um helgina voru af allt annarri stærðargráðu en fyrri árásir. Árásirnar á laugardag þurrkuðu út um fimm prósent af olíubirgðum heimsins með tilheyrandi hækkun á olíuverði þegar markaðir opnuðu í dag.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur hótað því að Bandaríkin bregðist við árásunum með hernaðaraðgerðum. Gaf hann þó í skyn að hann vildi að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, tæki af skarið með að lýsa því yfir hver bæri ábyrgð á árásunum og hvernig ætti að bregðast við.

Aðrar stórþjóðir hafa hikað við að kenna ákveðnum aðilum um árásina. Martin Griffiths, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Jemen, sagði öryggisráðinu í dag að ekki væri fullljóst hver hefði staðið að árásunum en að þær hefðu aukið hættuna á átökum í heimshlutanum.


Tengdar fréttir

Olíuverð snarhækkaði í Asíu

Olíuverð snarhækkaði á mörkuðum í Asíu í morgun eftir drónaárásirnar sem gerðar voru á olíuvinnslustöðvar í Sádi-Arabíu um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×