Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - ÍBV 6-4 | Tvær þrennur í tíu marka leik í Kaplakrika

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Steven Lennon.
Steven Lennon. Vísir/Daníel
FH vann tveggja marka sigur á ÍBV í tíu marka leik þar sem bæði Gary Martin og Morten Beck skoruðu þrennu. FH komst í fimm marka forystu en Eyjamenn gáfust ekki upp og lokatölur urðu 6-4, FH í vil. 

Leikurinn byrjaði rólega og lítið um færi á fyrstu 20 mínútum leiksins en síðan fengu áhorfendur fjögur mörk á 10 mínútna kafla. Fyrsta markið skoraði fyrirliði FH, Björn Daníel Sverrisson, hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu frá Jónatani Inga Jónssyni. Eyjamenn svöruðu í næstu sókn, Gary Martin fékk þá sendingu út fyrir teig þar sem hann náði föstu skoti á markið, með vindinn í bakið, og boltinn endaði í netinu. 

Morten Beck, kom heimamönnum í forystu stuttu síðar og bætti um betur í sókninni þar á eftir. Bæði mörkin frá dananum úr teignum þar sem hann var vel staðsettur og kláraði af öryggi, staðan því orðin 3-1, fyrir FH. 

Áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks fengu heimamenn vítaspyrnu, Oran Jackson braut þá Morten Beck sem var ekki með boltann enn hann var að koma sér í góða stöðu inní teig. Steven Lennon fór á punktinn og skoraði af öryggi og FH leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 4-1. 

Morten Beck var ekki lengi að fullkomna þrennuna, strax á 6 mínútu síðari hálfleiks bætti hann þriðja marki sínu við og fimmta marki FH-inga. Morten fékk þá nægan tíma inní teig Eyjamanna og skoraði hann af öryggi. 

Aðeins fimm mínútum síðar, eða á 60. mínútu leiksins skoraði Pétur Viðarsson, sjötta mark heimamanna. Markið kom eftir hornspyrnu Jónatans Inga Jónssonar, sem kom að þremur mörkum FH í dag. Allt stefndi í það að met yrði slegið í dag en Eyjamenn náðu að koma í veg fyrir það.

Þegar 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var staðan 6-1 fyrir heimamenn, Gary Martin bætti þá við öðru marki fyrir gestina. Stuttu síðar skoraði Sigurður Arnar Magnússon þriðja mark Eyjamanna og staðan orðin 6-3. 

Gary Martin innsiglaði þrennuna, þegar fimm mínútur voru til leiksloka, er hann skoraði tíunda og síðasta mark leiksins. Lokatölur í Hafnarfirði, 6-4, fyrir FH sem fagnaði þremur stigum. 

 

Af hverju vann FH? 

FH er miklu betra lið en ÍBV, það tók heimamenn smá tíma að finna taktinn í upphafi leiks en eftir fyrsta markið var ekki aftur snúið. Þrátt fyrir að hafa gefið eftir á síðustu 10 mínútum leiksins þá höfðu FH-ingar unnið sér inn fyrir því með góðri forystu.

Hverjir stóðu upp úr?

Heilt yfir var allt FH liðið gott, í 80 mínútur, enn Morten Beck skoraði þrennu, annan leikinn í röð í deildinni, það er ansi gott framlag frá dananum þar. Svo var Jónatan Ingi Jónsson atkvæðamikill í sóknarleik FH-inga. 

Gary Martin skoraði þrennu fyrir sína menn og gerði í rauninni allt sem í hans valdi stóð til að jafna leikinn en lengra komst liðið ekki í dag.  

Hvað gekk illa? 

Varnarleikur ÍBV var ekki uppá marga fiska og heilt yfir var leikur ÍBV ekki til eftirspurnar. Það var á síðustu 10 mínútum sem Eyja liðið pressaði vel og skoraði þrjú góð mörk sem ekki verður tekið af þeim en heilt yfir var þetta ekki góð frammistaða hjá liðinu. 

Hvað er framundan? 

Næst síðasta umferð deildarinnar verður spiluð á sunnudaginn, þá fara FH-ingar í Frostaskjólið og heilsa þar uppá Íslandsmeistara KR á meðan tekur ÍBV á móti Blikum í Vestmannaeyjum. 

Ian Jeffs, þjálfari ÍBV.vísir/daníel
Jeffsy: Ef leikmenn spila svona má flauta þetta mót af mín vegna

Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, var ánægður með loka mínútur sinna manna í dag þrátt fyrir slakan leik heilt yfir

„Síðustu 20 mínúturnar voru góðar en þetta leit ansi illa út þarna eftir 60 mínútur, eins og við værum að fara að tapa 10-1“

„Hrós á strákana að klára leikinn og gefa allt í þetta. Enn fyrstu 60 mínúturnar voru bara ekki nógu góðar hjá okkur“ sagði Jeffsy sem var sammála því að þetta stefndi allt í að fleiri met myndu falla í dag sem ÍBV yrði ekki stolt af 

Jeffsy viðurkennir að ÍBV hafi hreinlega sýnt skelfilegan varnarleik en tekur það með sér úr leiknum að leikmenn hafi ekki gefist upp og haldið áfram að gefa allt í leikinn

„Varnarlega séð voru við skelfilegir á köflum, enn eins og ég sagði þá er ég bara ánægður með það að strákarnir hafi rifið sig upp og skorað þrjú mörk í lokin og gátum jafnvel bætt við fimmta markinu undir lokin og gert þetta spennandi“ 

ÍBV er löngu fallið úr deildinni þegar ennþá eru tveir leikir eftir, Jeffsy segir að það megi alveg flauta þetta mót af hans vegna ef leikmenn ætli að sýna jafn slaka frammistöðu og þeir gerðu á fyrstu 60 mínútum leiksins

„Ef leikmenn ætla að spila eins og þeir gerðu síðasta hálftímann í dag þá er ég bara spenntur fyrir næstu tveimur leikjum en ef þeir ætla að gera það eins og þeir gerðu fyrsta klukkutímann þá má bara flauta þetta mót af mín vegna“ sagði Ian Jeffs að lokum

 

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH.Vísir/Bára
Óli Kristjáns: Ég ætla að sleppa því að vera fúli kallinn

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var fyrst og fremst ánægður með það hvernig hans leikmenn mættu í leikinn í dag eftir vonbrigðin á laugardaginn

„ÍBV voru eins og ég átti von á fyrir leikinn, þeir höfðu engu að tapa. Við vorum með þá í spennitreygju á löngum köflum í leiknum, þeir skora vissulega þetta jöfnunarmark, en við setjum svo þarna mörk sem komu okkur í góða stöðu. Svo hættu við bara að gera það sem við vorum að gera.“ 

„Þetta var ekki fallegur endir, en þrjú stig eru það sem skiptir máli. Sem þjálfari langar manni að æsa sig en það er hollt að geyma það bara og vera ánægður með stigin þrjú og í rauninni að vera ángæður með viðbrögðin sem ég fékk frá leikmönnum eftir vonbrigðin á laugardaginn“ sagði Óli, sem var ánægður með það hvernig leikmenn mættu til leiks í dag eftir að hafa tapað bikarúrslitaleiknum á laugardaginn

Óli er fyrst og fremst ánægður með það hvernig hans leikmenn mættu til leiks í dag. Liðið tapaði bikarúrslitaleiknum gegn Víkingi á laugardaginn var og segir Óli að hann hafi ákveðið að sleppa því að vera fúli kallinn eftir leik þrátt fyrir að vera heldur ósáttur við lokakafla leiksins að þá sé hann heilt yfir ánægður með leikinn og stigin þrjú

„Við hittumst allir og náðum saman að deila vonbrigðunum á laugardaginn, þeir fengu svo frí á sunnudaginn og ég fann það svo bara strax á mánudaginn að menn voru staðráðnir í því að þvo þennan leik á laugardaginn af sér. Ég er bara ángæður með stigin og karakterinn í strákunum hvernig þeir komu inní leikinn í dag.“

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.