Erlent

Göngumanni bjargað eftir að hafa „haldið“ á brotnum fæti sínum í tvo daga

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 54 ára Neil Parker er margreyndur útivistarmaður.
Hinn 54 ára Neil Parker er margreyndur útivistarmaður. epa
Áströlskum göngumanni, sem slasaðist eftir að hafa dottið sex metra niður foss í óbyggðum, var bjargað í gær eftir að hann hafði „haldið“ á brotnum fæti sínum og skriðið í átt til byggða í tvo daga.

BBC segir frá því að hinn 54 ára Neil Parker hafi verið einn á ferð í óbyggðum nærri Brisbane á austurströnd Ástralíu á sunnudaginn þegar hann rann og féll niður fossinn með þeim afleiðingum að ökkli hans og sköflungur brotnuðu.

Parker hafði misst síma sinn þegar hann féll og sá hann þá þann kost vænstan að skríða í átt að rjóðri þar sem hann fannst síðar. „Ég komst metra, kannski einn og hálfan, en svo þurfti ég að stoppa og hvíla mig,“ sagði Parker þegar hann ræddi við fjölmiðlamenn af sjúkrabeðinu fyrr í dag. „Ég trúði þessu ekki. Þetta voru bara þrír kílómetrar en það tók tvo daga að komast þá. Ég hélt að ég myndi aldrei komast þangað.“

Sást af björgunarliði í þyrlu

Parker var á göngu, sem átti að taka um þrjá tíma, nærri Nebo-fjalli þegar hann hann rann til á lausum steinum og féll niður foss. Hafi hann svo lent á steini og endað miðjum læknum fyrir neðan fossinn. Hann segir að hann hafi þá gert sér grein fyrir því að það væri einungis undir honum sjálfum komið hvort hann myndi bjargast.

Í frétt BBC segir að Parker sé margreyndur útivistarmaður og að hann hafi notast við sárabindi sem hann hafði meðferðis og göngustafina sem spelkur. Hann hafi einungis verið með hnetur, sælgæti og eina orkustöng til að borða og hafi hann því verið mjög svangur þegar honum var loks bjargað.

Björgunarlið í þyrlu sá til Parker í rjóðrinu og var hann fluttur á sjúkrahús í Brisbane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×