Erlent

Réðust að og opnuðu líkkistu DJ Arafat eftir minningartónleika

Andri Eysteinsson skrifar
DJ Arafat var einn vinsælasti tónlistarmaður Fílabeinsstrandarinnar.
DJ Arafat var einn vinsælasti tónlistarmaður Fílabeinsstrandarinnar. visir/AFP
Útför eins vinsælasta tónlistarmanns Fílabeinsstrandarinnar, DJ Arafat, fór fram í Abidjan stærstu borg landsins. Mikil sorg hefur ríkt síðan að hinn 33 ára gamli DJ Arafat lést eftir mótorhjólaslys 12. ágúst síðastliðin. BBC greinir frá.

Áðdáendur Arafat, sem hét réttu nafni Ange Didier Houon, fjölmenntu á Houphouët-Boigny knattspyrnuvöllinn þar sem athöfnin fór fram.

Nokkru eftir athöfnina virtust aðdáendur hafa flykkst að kistunni sem geymdi jarðneskar leifar tónlistarmannsins, opnað hana og byrjað að afklæða líkið. Að sögn til þess að staðfesta að um væri að ræða DJ Arafat. Lögreglan neyddist til þess að beita táragasi á syrgjendur til þess að koma í veg fyrir frekari ágang.

AFP hefur eftir einum syrgjenda að hann hafi einfaldlega viljað sjá lík uppáhalds tónlistarmanns síns áður en hann yrði grafinn.

DJ Arafat var einn vinsælasti frönskumælandi tónlistarmaðurinn í Afríku, tónlist hans var mikið í Coupé-décale dans stíl. Hann tileinkaði sér glamúrlíf tónlistarmannsins og var iðulega vel klæddur og prýddur skarti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×