Íslenski boltinn

Óskar Örn orðinn markahæsti leikmaður KR í sögu efstu deildar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Magnaður Óskar Örn Hauksson.
Magnaður Óskar Örn Hauksson. vísir/bára
Óskar Örn Hauksson skoraði fyrra mark KR í öruggum 2-0 sigri á ÍA í Pepsi Max deild karla í kvöld. Hans sjöunda deildarmark í sumar og hans 63. fyrir KR í efstu deild.

Enginn KR-ingur hefur skorað meira í efstu deild hér á landi en Ellert B. Schram gerði á sínum tíma 62 mörk fyrir félagið.

 

Alls eru 12 ár síðan Óskar Örn, sem er nú  fyrirliði liðsins, gekk til liðs við KR frá Grindavík. Það sumar skoraði hann tvö mörk fyrir félagið. Hans fyrsta mark kom í 1-1 jafntefli gegn Fram á Laugardalsvelli þann 23. september.

Síðan þá hefur hann skorað 62 til viðbótar og unnið þónokkra titla í leiðinni. Hann gæti svo bætt við titli en KR-ingar eru komnir langleiðina með að landa sjálfum Íslandsmeistaratitlinum.

 

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var spurður út í Óskar að loknum 2-0 sigri á ÍA fyrr i kvöld.







„Óskar er ótrúlega flottur leikmaður. Hann kom hingað ungur að árum en er nú orðinn að leiðtoga hjá félaginu. Hann hefur búinn til ákveðinn kúltúr í búningsklefanum í kringum styrktaræfingar og þess háttar.“

 

Óskar er af mörgum talinn sá leikmaður deildarinnar sem er í hvað bestu formi og Rúnar kom aðeins inn á það.

„Uppáhalds blaðið hans er Men´s Health,“ sagði Rúnar og glotti við tönn.

 

Hann gat þó ekki annað en hrósað Óskari.

„Hann hugsar vel um sig og er sá leikmaður sem hugsar best um sig fyrir og eftir leiki. Það sama á við um æfingavikuna. Hann heldur sér í formi og er búinn að mennta sig í þeim efnum. Hann veit nákvæmlega hvernig á að vera í toppstandi og hefur blómstrað í sumar.“

„Það þarf bara að gefa honum frjálsar hendur og leyfa honum að gera það sem hann vill gera,“ sagði Rúnar að lokum en það er nokkuð ljóst Óskar Örn á fyrirliðabandið skilið og er frábær fyrirmynd fyrir aðra leikmenn liðsins. Bæði innan sem utan vallar en enginn leikmaður hefur skorað meira en kantmaðurinn knái í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×