Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - ÍA 2-0 | KR með níu fingur á bikarinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
vísir/bára
KR vann öruggan 2-0 sigur gegn ÍA að Meistaravöllum í kvöld í Pepsi Max deild karla. Sigurinn þýðir að KR er komið einu skrefi nær Íslandsmeistaratitlinum, þeim 27. í sögu félagsins. Mörk þeirra í dag skoruðu þeir Óskar Örn Hauksson og Kristinn Jónsson. Sá fyrrnefndi var að skora sitt 63. mark í efstu deild fyrir félagið og er þar með orðinn markahæsti KR-ingur sögunnar í efstu deild.

 

ÍA kom til að halda hreinu

Það var morgunljóst frá upphafi leiks að Skagamenn komu til að halda hreinu og ná í eitt stig. Mögulega öll þrjú ef þeir myndu slysa inn marki. Fyrstu 45 mínútur leiksins fóru þeir ekki yfir miðju nema þeir hefðu unnið boltann og væru að sækja hratt. Að því sögðu þá fóru þeir aldrei með fleiri en 3-4 menn í hverja sókn.

 

KR hélt boltanum löngum köflum án þess þó að skapa sér nein alvöru færi. Það var svo þegar aðeins tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik sem Óskar Örn – Hver annar? – kom heimamönnum yfir með marki sem við höfum öll séð áður. Hér áður fyrr var það Bjarni Guðjónsson sem lagði hann á Óskar úr aukaspyrnum en nú var það Tobias Thomsen.

 

KR fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan D-bogann á vítateig ÍA. Óskar, Tobias og Pablo stilltu sér upp. Tobias potaði knettinum svo út á Óskar sem lúðraði honum með jörðinni í hornið fjær. Óverjandi fyrir Árna Snæ Ólafsson í marki ÍA og heimamenn komnir 1-0 yfir. Var staðan svo þannig þegar Einar Ingi Jóhannesson flautaði til loka fyrri hálfleiks tíu mínútum síðar.

 

ÍA fékk þó tvær álitlegar aukaspyrnur undir lok fyrri hálfleiks en tókst ekki að nýta þær. Þeir fengu svo algjört dauðafæri þegar rúmlega 15 mínútur voru til leiksloka en fram að því hafði lítið markvert gerst í síðari hálfleik.

 

Gestirnir áttu þá innkast ofarlega á vellinum sem Stefán Teitur Þórðarson tók. Hann grýtti knettinum inn á teig þar sem Lars Marcus Johansson átti skalla sem Beitir Ólafsson misreiknaði algjörlega en reyndi þó að grípa. Hann missti knöttinn til Steinars Þorsteinssonar, sem hafði einnig komið inn á sem varamaður, og átti Steinar skot sem stendi í netið ef ekki hefði verið fyrir Finn Tómas Pálmason sem bjargaði á línu. Boltnn barst aftur til Steinars sem reyndi að skalla í átt að marki en knötturinn datt ofan á þaknetið.

 

Það var svo á 87. mínútu sem Kristinn Jónsson, vinstri bakvörður KR, gerði út um leikinn en boltinn hrökk þá til hans rétt fyrir utan vítateig ÍA. Kristinn lagði knöttinn fyrir sig og þrumaði honum svo rakleiðis í slá og inn. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins.

 

Af hverju vann KR?

Af því þeir sóttu til sigurs á meðan ÍA hafði lítinn áhuga á því. Svo er KR með einstaklega góða skotmenn en bæði mörk liðsins voru eftir frábær skot fyrir utan teig.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Eðlilegast er að nefna markaskorara KR liðsins en Óskar Örn og Kristinn Jónsson voru öflugir í dag, sá síðarnefndi sérstaklega en hann var eins og rennilás upp vænginn í 90 mínútur. Þá var Finnur Tómas öflugur í miðverðinum og Skúli Jón Friðgeirsson átti góðan leik á miðsvæðinu þó svo hann hafi verið heppinn að sleppa eftir glórulausa tæklingu í síðari hálfleik þegar hann var á spjaldi.

 

Hvað gekk illa?

KR-ingum gekk brösuglega að brjóta varnarmúr ÍA á bak aftur en Skagamenn mættu í skotgrafirnar í Vesturbænum í kvöld. Innan blaðamannastúkunnar áttu menn í stökustu vandræðum með að sjá hvort þeir væru að spila 4-3-3 eða 5-4-1, svo varnarsinnaðir voru þeir. Þá gekk ÍA illa að nýta skyndisóknir sínar en þeir fengu nokkur álitleg upphlaup í leiknum.

 

Hvað gerist næst?

Sem stendur er örugglega allt KR-liðið að horfa á Breiðablik-Fylkir en landi Árbæingar sigri er KR orðið Íslandsmeistari.

 

Í næstu umferð fara KR-ingar í heimsókn á Hlíðarenda á meðan ÍA fær Grindavík í heimsókn.

Rúnar Kristinsson: Eigum enn erfitt verkefni fyrir höndum

„Ánægja og gleði með að sigra leikinn. Það er mikið undir og það er mikil pressa á að halda áfram að sækja stig. Svo er erfitt að spila við Skagamenn, þeir eru agressífir, hlaupa mikið og það er erfitt að brjóta þá á bak aftur en við gerðum það frábærlega í dag og vinnum sannfærandi sigur,“ sagði Rúnar Kristinsson um 2-0 sigur KR á ÍA í dag.

 

Varnarmúr ÍA kom Rúnari ekki það mikið á óvart.

„Sérstaklega í fyrri hálfleik og staðan er 0-0 þá vilja þeir liggja til baka og beita skyndiskóknum, þeir eru góðir í því því þeir eru hraðir fram en þeir fóru ekki oft yfir miðju og þeir þreyttust á að hlaupa á eftir okkur. Við færðum boltann faglega og á endanum opnast alltaf eitthvað en ef það gengur ekki þá verðuru að nýta föst leikatriði og Óskar gerði það í dag.“

 

„Við þurfum enn að fá þrjú stig til að vinna Íslandsmótið þar sem ég reikna með að Breiðablik vinni sinn leik. Það eru þrír leikir eftir og við eigum eftir að spila við þau þrjú lið sem flestir spáðu efstu þremur sætunum fyrir mót þannig að við eigum enn erfitt verkefni fyrir höndum,“ sagði Rúnar Kristinsson að lokum er hann var spurður út í næsta leik KR og hvernig það væri að mögulega landa titlinum á Hlíðarenda, heimavelli erkifjandanna í Val.

Jóhannes Karl: Verðandi Íslandsmeistarar, reynið að spila smá fótbolta fyrir fólkið ykkar í seinni hálfleik

„Það var engin launing að við ætluðum að vera ansi þéttir til baka í fyrri hálfleiknum og mér fannst það heppnast vel því KR-ingarnir spörkuðu boltanum út af ansi oft þó þeir væru í fínni stöðu. Það sem skilur að eftir fyrri hálfleik er hvað dómarinn [Einar Ingi Jóhannesson] var flautuglaður og mér fannst hann ekki höndla þetta nægilega vel“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfara Skagamanna, eftir 2-0 tap ÍA gegn KR í Vesturbænum.

 

Jóhannes Karl var ekki hættur að ræða dómara leiksins.

„Hann gaf KR-ingum aukaspyrnur á það sem mér fannst vera alvöru tæklingar sem eiga að eiga sér stað í fótboltaleikjum en dómarinn flautaði á allt fyrir KR-ingana í fyrri hálfleiknum. Það er það sem skilur að og svo undir lok leiks erum við að reyna jafna og Kiddi [Kristinn Jónsson] skorar undramark, vel gert hjá honum reyndar.“

 

Í kjölfarið var Jóhannes spurður út í línuna sem Einar Ingi lagði í dag en leikir KR og ÍA hafa oftar en ekki verið mjög líflegir í gegnum árin.

„Ég veit ekki hvort dómarinn hafi aldrei horft á KR-ÍA hérna áður en ég skyldi ekki línuna sem hann var að leggja með aukaspyrnunum sem hann gaf KR-ingum í fyrri hálfleik. Þeir hentu sér niður á hættulegum stöðum og fengu aukaspyrnur sem mér fannst alltof soft.“

 

„Við vissum alltaf að það yrði erfitt að koma hingað í Vesturbæinn að spila á móti KR. Þeir gera mjög vel sem þeir eru að gera og ná marki í fyrri hálfleik með frábærum gæðum hjá Óskari Erni Haukssyni en eins og ég kom inn á áðan þá fá þeir gefins aukaspyrnuna,“ sagði Jóhannes um leik dagsins.

 

Hann hélt áfram.

„Eftir markið reyna þeir ekki að spila fótbolta og ég er pínu svekktur yfir því hvernig KR kom inn í seinni hálfleikinn. Verðandi Íslandsmeistarar, reynið að spila smá fótbolta fyrir fólkið ykkar í seinni hálfleik og mér fannst það vera skrýtið þar sem KR er með fullt af frábærum fótboltamönnum,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.

Jóhannes Karl sagði KR ekki hafa reynt að spila fótbolta eftir fyrra markið og fannst dómarinn flautuglaður

Óskar Örn: Klárum þetta og þá skal ég spjalla um allt þetta

„Hrikalega vel. Erfið og kærkomin þrjú stig svo ég er hrikalega ánægður með þetta,“ sagði Óskar Örn Hauksson, annar af markaskorurum KR, eftir 2-0 sigur liðsins á ÍA í Vesturbænum í dag.

 

„Þetta var eiginlega stórfurðulegur leikur. Eins og í fyrri hálfleik þá komu þeir ekki yfir miðju og það er erfitt að skora gegn 11 mönnum sem æfa fótbolta alla vikuna og standa á teignum. En við skoruðum tvö mörk og þeir ekki neitt svo við erum hrikalega ánægðir með það,“ sagði Óskar Örn aðspurður út í leik dagsins.

 

„Klárum þetta og þá skal ég spjalla um allt þetta, klárum okkar fyrst,“ sagði Óskar Örn þegar umræðan barst annars vegar að því að KR-ingar væru nú komnir með níu fingur á titilinn og svo að því að hann væri orðinn markahæsti leikmaður KR í efstu deild frá upphafi með 63 mörk.

 

 „Bara hrikalega vel. Við verðum að treysta á okkur sjálfa, þetta er algjörlega í okkar höndum og við stefnum á að klára þetta í næsta leik,“ sagði Óskar Örn að lokum þegar hann var spurður út í hvernig það legðist í hann og KR-liðið í heild sinni að geta tryggt titilinn á Hlíðarenda í næstu umferð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira