Innlent

Kona brenndist þegar rafretta sprakk og kveikti í dýnunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafrettur hafa átt vaxandi vinsælda að fagna undanfarin ár, sérstaklega á meðal yngra fólks. Myndin er úr safni.
Rafrettur hafa átt vaxandi vinsælda að fagna undanfarin ár, sérstaklega á meðal yngra fólks. Myndin er úr safni. Vísir/Getty
Ung kona brenndist á upphandlegg þegar rafretta í hleðslu sprakk og þeyttist í rúm þar sem hún svaf í Engihjalla í Kópavogi á föstudagsmorgun. Eldur kviknaði í dýnu og rúmfötum út frá rafrettunni en konan náði sjálf að slökkva hann áður en lögreglu og slökkvilið bar að garði.

Að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hlaut stúlkan, sem er um tvítugt, brunasár á upphandlegg. Hún var flutt á slysadeild með sjúkrabíl til aðhlynningar. Íbúðin fylltist af reyk en eina tjónið varð á dýnunni og rúmfötunum sem kviknaði í.

Tæknideild lögreglunnar hefur leifar rafrettunnar til skoðunar en Gunnar segir erfitt að segja hvað olli sprengingunni því þær séu mikið brunnar.

„Þetta virðist hafa hitnað mjög mikið. Svo bráðnar þetta, springur og hendist af borðinu þar sem þetta var og í rúmið þar sem hún lá,“ segir hann.

Gunnar segist ekki hafa heyrt af sambærilegu tilfelli þar sem kviknaði í út frá rafrettu á Íslandi áður. Áhöfn flugvélar lággjaldaflugfélagsins Wizz air þurfti þó að slökkva í rafrettu sem kviknað hafði í þegar takki hennar festist inni í hliðarhólfi bakpoka í farangurshólfi fyrir ofan sæti í september árið 2017. Snúa þurfti vélinni við til Keflavíkur vegna eldsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×