Innlent

Sjálfstæðismenn funda í Valhöll

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kemur til fundarins í Valhöll. Hann hefur lengi gert tilkall til ráðherraembættis enda oddviti í Suðurkjördæmi, einu sterkasta vígi flokksins.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kemur til fundarins í Valhöll. Hann hefur lengi gert tilkall til ráðherraembættis enda oddviti í Suðurkjördæmi, einu sterkasta vígi flokksins. vísir/vilhelm

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar í Valhöll núna klukkan 14:15.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður, sagði í samtali við fréttastofu fyrir fundinn að farið yrði yfir þingmál vetrarins og svo yrði ákveðið hvenær þingflokkurinn kemur saman á ný til að fara yfir ráðherramálin.

Seinni fundurinn verður væntanlega síðdegis í dag eða í kvöld. Á honum ætti að koma í ljós hver verður næsti dómsmálaráðherra en boðað hefur verið til ríkisráðsfundar á Bessastöðum á morgun þar sem nýr ráðherra tekur formlega við embætti.

Sjá einnig:Hrókerar Bjarni stutt eða langt

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur einnig farið með dómsmálin eftir að Sigríður Á. Andersen, sagði af sér ráðherraembætti í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.

Ásmundur Friðriksson mætir til fundarins.vísir/vilhelm

Alltaf lá fyrir að sú ráðstöfun yrði aðeins tímabundin. Bjarni sagður sjálfur að þetta fyrirkomulag myndi aðeins vara í nokkrar vikur en nú eru liðnir nokkrir mánuðir.

Eins og Vísir fjallaði um í ítarlegri fréttaskýringu fyrr í vikunni var almennt gert ráð fyrir því að Bjarni myndi þá skipa Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara flokksins og formann utanríkismálanefndar, sem dómsmálaráðherra.

Hins vegar virðist Bjarni hafa hikað við að stíga það skref eftir samráðsferli sem fólst í því að formaðurinn ræddi við alla þingmenn flokksins.

Enn er nafn Áslaugar Örnu nefnt í tengslum við embættið en einnig nafn Birgis Ármannssonar og Brynjars Níelssonar.

Þá hefur Páll Magnússon, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, lengi gert tilkall til ráðherraembættis og formaður flokksins hefur sagt að Sigríður Á. Andersen eigi afturkvæmt í ríkisstjórn ef svo ber undir.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mætir til fundar.vísir/vilhelm
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, kemur til fundarins.vísir/vilhelm

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.