Innlent

Spurning hvort Bjarni hrókerar langt eða stutt

Jakob Bjarnar skrifar
Bjarni leggur nú ráðherrakapal og heldur spilunum þétt upp að brjósti sér. Að ýmsu er að hyggja en Bjarni kann hina pólitísku refskák ágætlega. Búist er við því að hann muni leggja spilin á borðið á fimmtudaginn.
Bjarni leggur nú ráðherrakapal og heldur spilunum þétt upp að brjósti sér. Að ýmsu er að hyggja en Bjarni kann hina pólitísku refskák ágætlega. Búist er við því að hann muni leggja spilin á borðið á fimmtudaginn.

Sjálfstæðismenn búast fastlega við því að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður flokksins, muni á þingflokksfundi sem boðað hefur verið til á fimmtudaginn, tilkynna um nýjan eða jafnvel nýja ráðherra í ríkisstjórn.

Helstu kandídatar

Ráðherrakapallinn svonefndur er orðinn afar flókinn. Þau sem helst koma til greina eru: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari flokksins, Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson, Páll Magnússon, Haraldur Benediktsson og svo Sigríður Á. Andersen. Flest hafa þau gefið það út að þau vilji gjarnan setjast í ríkisstjórn.

Bjarni mun halda spilunum þétt að sér allt þar til hann hreinlega tilkynnir um það hvernig hann sér þetta fyrir sér. Það er til þess að skrúfa fyrir að efasemdir magnist og samkvæmt hefð mun þingflokkurinn una hans tillögum. Frá þessu verður svo gengið á ríkisráðsfundi sem verður haldinn á föstudaginn.



Af hverju hikaði Bjarni í vor?

Allt frá því að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók við dómsmálaráðuneytinu í mars, samhliða því að sinna ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, eftir að Sigríður Á. Andersen steig til hliðar vegna Landsréttarmálsins, hefur legið fyrir að það yrði aðeins tímabundið. Bjarni sagði þá sjálfur að þetta fyrirkomulag yrði aðeins um nokkurra vikna skeið.

Áslaug Arna. Víst er að hún treystir sér vel til og vill fara í dómsmálaráðuneytið. Og var frekar gert ráð fyrir því að svo myndi fara í vor, en eitthvað stóð í Bjarna með að skipa hana þá. Ekki er víst að staða hennar hafi batnað gagnvart óánægum í flokknum sem hugsanlega þarf að sefa.visir/vilhelm

Þannig lá fyrir að nýr ráðherra Sjálfstæðisflokksins yrði kynntur í vor. Vegna kynjasjónarmiða, sem virðast trompa öll önnur sjónarmið, svo sem þau að oddvitar kjördæma skuli eiga sæti í ríkisstjórn þeirri sem Sjálfstæðisflokkur á aðild að, var almennt gert ráð fyrir því að nýr ráðherra yrði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins. Hins vegar virðist Bjarni hafa hikað við að stíga það skref eftir samráðsferli, sem fólst í því að formaðurinn ræddi við þingliðið allt, maður á mann.

Vaxandi óánægja þeirra íhaldssömu

Hvað það er sem stóð í formanninum með að ganga frá þessu í vor veit auðvitað enginn nema hann sjálfur. Hins vegar liggur fyrir að með því að gera Áslaugu Örnu að ráðherra væri þar með öll forysta flokksins; formaður, varaformaður og ritari komin inn í ríkisstjórnina. Það þykir ekki gefa góða mynd af hinum breiða og víða flokki sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gefa sig út fyrir að vera.

Birgir Ármannsson og Páll Magnússon koma báðir til greina sem ráðherrar en af ólíkum ástæðum þó. Tvisvar hefur verið gengið fram hjá Páli sem telur sig eiga tilkall til ráðherradóms sem oddviti Suðurkjördæmis.visir/vilhelm

Við bætist að forysta flokksins hefur verið gagnrýnd fyrir að vera einsleit. Og það hefur ekki breyst nema síður sé; vaxandi óánægju gætir meðal þeirra sem teljast til þeirra íhaldssamari í flokknum. Þeir eru orðnir afar ósáttir svo ekki sé fastar að orði kveðið. Og spilar þar eitt og annað inn í svo sem þungunarrofsmálið, stefna í útlendingamálum og orkupakkinn, svo eitthvað sé nefnt.

Þessi hópur er orðinn mjög órólegur og er farinn að renna hýru auga til Miðflokksins sem hefur gert sig breiðan í öllum þessum málum. Vilji Bjarni reyna að lægja þær öldur er Áslaug Arna ekki góður kostur; hún er í raun fulltrúi fyrir allt það sem þessum hópi finnst óforsvaranlegt í Sjálfstæðisflokknum. Eitt gott dæmi um það er þegar Gústaf Níelsson var hreinlega púaður úr pontu á Landsfundi árið 2015. Sár og svekktur skrifaði Gústaf það helst á reikning hins nýkjörna ritara; Áslaugu Örnu.

Sigríður Á. eða Páll Magnússon

Bjarna er þannig vandi á höndum. Hvaða annan kost á hann í stöðunni ef hann ætlar að gæta að kynjasjónarmiðum? Jú, það er þá Sigríður Á. Andersen. Sjálfstæðismenn hafa á stundum ekki hikað við að fara í umdeildar stöðuveitingar, reyndar virðist það henta flokknum vel; þéttir raðirnar og sýnir að þeir standi með sínum: Að flokkshollustan borgi sig.

Sigríður afhendir Þórdísi Kolbrúnu lyklavöldin í dómsmálaráðuneytinu. Bjarni hefur sagt að ekki sé útilokað að Sigríður eigi afturkvæmt í ráðherraliðið. En, víst í ljósi þess sem á hefur gengið að ef hún tekur aftur við eins og ekkert hafi í skorist þá yrði það umdeilt. En, kannski umdeilt á réttu bæjunum.visir/vilhelm

Þannig var Geir H. Haarde skipaður sendiherra í Washington þó hann væri í málaferlum við þjóð sína vegna Landsdómsins. Og fleiri dæmi mætti nefna. Bjarni hefur sagt að Sigríður eigi afturkvæmt í ráðherraliðið ef svo ber undir. Þótt Sigríður hafi hrökklast úr ríkisstjórninni gæti það, á einhverjum öfugsnúnum forsendum, verið kostur.

Hitt er svo að löng hefð er fyrir því að oddvitar hvers kjördæmis eigi sæti í ríkisstjórn. Páll Magnússon er oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, sem er eitt sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins. Það sem meira er þá er það eina kjördæmið sem hefur styrkt sig í sessi samkvæmt kjördæmakönnun Gallup, í öllum öðrum kjördæmum hefur flokkurinn gefið eftir. Tvisvar hefur verið gengið fram hjá Páli við ráðherraskipan. Páll gaf það út að hann væri afar ósáttur við þetta og benti á að þetta hafi ekki farið vel í flokksmenn í því kjördæmi. Hann studdi ekki ráðherraskipan árið 2017 og sagði hana lítilsvirðingu við kjósendur flokksins í Suðurkjördæmi.

Haraldur Ben eða Brynjar

Annar oddviti er svo Haraldur Benediktsson, vel metinn innan flokksins og stimplaði sig inn í hinn íhaldssamari arm flokksins þegar hann reyndi að finna sátt í orkupakkamálinu fyrir skemmstu. Það sem Haraldur hefur á móti sér er vitaskuld þetta sama og Páll; hann er miðaldra, hvítur karlmaður. Og, hann er að auki úr sama kjördæmi og Þórdís Kolbrún. Sem áður sagði skipta kjördæmasjónarmið og niðurstaða lýðræðislegra og opinna prófkjöra máli þótt þau hafi mátt víkja fyrir kynjasjónarmiðunum.

Hvaða möguleikar eru þá eftir? Ef líta ætti til faglegra sjónarmiða, sem hafa nú reyndar verið hálfgerð aukageta á Íslandi almennt, þá hlýtur Brynjar Níelsson að koma til álita.

Ásmundur, Jón, Njáll Trausti og Haraldur Benediktsson. Enginn þeirra hefur unnið sér neitt til óyndis meðal þeirra grjóthörðu sem tilheyra íhaldsarmi flokksins og Haraldur hlýtur að koma til greina sem ráðherra.visir/vilhelm

Vegna þess að niðurstaðan úr prófkjörum þótti ekki henta að teknu tilliti til títtnefndra kynjasjónarmiða var Brynjar með handafli færður niður fyrir Sigríði Á. Andersen í Reykjavíkurkjördæmi suður. Það þótti mörgum skjóta skökku við því Sigríður hefur í gegnum tíðina haft uppi efasemdir um að kynjasjónarmið eigi að vera svo ráðandi sem raun bar vitni.

Og Sigríður var svo gerð að dómsmálaráðherra. Brynjar er lögmaður, fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins og ætti því að þekkja til málaflokksins. Hins vegar er líklegt að Landsréttarmálið geti reynst átilla til að ganga fram hjá Brynjari, en eiginkona hans, Arnfríður Einarsdóttir, var skipuð dómari við Landsrétt. Og leiða má að því líkum að það geri hann hugsanlega vanhæfan í að fjalla um réttinn sem dómsmálaráðherra.

Birgir sem ein allsherjar málamiðlun

Þá er í raun einn möguleiki eftir, sem nefndur hefur verið til sögunnar í eyru blaðamanns Vísis, sem hefur átt mörg samtöl við menn innan sem utan þingflokksins um þetta efni. Birgir Ármannsson er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, reynslumestur þingmanna og óumdeildur innan flokks. Það væri þá einhvers konar núllpunktur. Málamiðlun allra málamiðlana. Og til að sætta flokksmenn í Suðurkjördæmi yrði þá Páll gerður þingflokksformaður. Birgir hefur það vissulega á móti sér að vera ekki kona.

Ef eingöngu væri litið til faglegra sjónarmiða hlýtur Brynjar að koma til álita sem næsti dómsmálaráðherra, hann ætti að þekkja málaflokkinn best af þeim sem til greina koma. En, það telst líklega aukaatriði.visir/vilhelm

En, skipan hans yrði kynnt sem svo að þarna væri verið að launa honum dygga þjónustu og þetta sé nú bara tímabundið.

Að hrókera langt

En, svo er nefndur enn einn möguleiki til sögunnar sem Vísir hefur heyrt, sem þýðir enn meiri hrókeringar, eða kannski öllu heldur hrókera langt svo reynt sé á líkingamálið. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við var rætt um að það yrðu einhverjar breytingar gerðar á ríkisstjórninni um mitt kjörtímabil. Hún hefur nú setið í tvö ár. Þá voru uppi raddir um að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, oddviti flokksins í veikasta kjördæmi þess, Norðaustur, myndi hverfa úr ríkisstjórninni.

Þetta hefur ekki verið rætt mikið síðan en hins vegar á Bjarni þann möguleika að gæta að kynjasjónarmiðum, skipa Áslaugu Örnu í stöðu dómsmálaráðherra, eins og alltaf mun hafa verið ætlunin. Kristján Þór hyrfi úr ríkisstjórninni og þar yrði Páll Magnússon hugsanlega settur þar inn. Reyndar var því slúðrað í eyra blaðamanns Vísis, og fullyrt að þau óstaðfestu tíðindi væru þess efnis að Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, yrði leiddur inn í atvinnuvegaráðuneytið, en þeir sem Vísir hefur rætt við innan flokksins telja það einsýnt að margir aðrir væru fyrr til kallaðir, en Jón.

Davíð virðist ekki hafa mikið álit á sporgöngumönnum sínum í formannsstóli og hikar ekki við að sparka í þá bjóði honum svo við að horfa.

Kosturinn við þessa ráðstöfun yrði sá að taka athyglina að einhverju leyti frá skipan Áslaugar Örnu, sem í ljósi ofangreinds yrði umdeild, og færa hana yfir á þessar hrókeringar. Hvað sem verður þá kemur það í ljós í lok vikunnar.

Davíð er Jókerinn í spilastokknum

Víst er að margur hefur farið flatt á að vanmeta Bjarna Benediktsson í hinni pólitísku refskák. Víst er að hann siglir fleyi sínu enn á yfirborði sjávar en yfir hann hafa gengið stórsjóir. En meðan hann situr nú og stokkar er víst að það er jóker í spilastokknum. Forveri hans, Davíð Oddsson, hefur reynst honum afar erfiður svo ekki sé meira sagt. Davíð virðist ekki hafa mikið álit á þeim sem tóku við af honum sem formenn flokksins. Þannig var á dögunum afhjúpað málverk í Valhöll af Geir H. Haarde, sem formanni. Davíð var þar ekki og eftir því sem Vísir kemst næst var hann ekki einu sinni á gestalista. Og frægt er þegar Bjarni birti afmælisgrein sína um Sjálfstæðisflokkinn níræðan í Fréttablaðinu en ekki Morgunblaðinu eins og tíðkast hefur frá öndverðu.

Davíð mun hafa talið það helsta mælikvarða á árangur formanns flokksins að honum takist að halda honum saman. Nú liggur fyrir að flokkurinn er klofinn. Þeir sem telja sig frjálslynda hafa horfið í Viðreisn, svo sem Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Og hinir íhaldssömu eru tvístígandi og horfa hýru auga til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. En, þar leggur Davíð sitt lóð á vogarskálar með árásum á forystuna, svo hörðum að mörgum þykir nóg um.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×