Íslenski boltinn

Kolbeinn Birgir: Allt til alls hjá Dortmund

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kolbeinn ásamt þjálfara varaliðs Dortmund.
Kolbeinn ásamt þjálfara varaliðs Dortmund. vísir/mynd/dortmund
Það vakti mikla athygli þegar íslenski unglingalandsliðsmaðurinn Kolbeinn Birgir Finnsson gekk í raðir þýska stórliðsins Borussia Dortmund á dögunum eftir að hafa leikið með uppeldisfélagi sínu, Fylki, í Pepsi-Max deildinni fyrri hluta sumars.

Arnar Björnsson ræddi við Kolbein um vistaskiptin á æfingu U21 árs landsliðsins sem undirbýr sig nú fyrir leiki gegn Lúxemborg og Armeníu.

„Lífið er gott. Ég er mjög sáttur við lífið þarna. Það er allt til alls og allt til alls til að bæta sig sem fótboltamaður svo ég er mjög sáttur.“

„Ég veit hvað ég ætla mér og þetta er mjög gott skref til að láta það rætast. Þjálfararnir eru mjög góðir og það er hugsað um allt þarna. Ég held að þetta sé akkúrat staðurinn til að vera á til að verða betri og taka næsta skref.“

„Mér hefur gengið mjög fínt. Ég held ég hafi komið ágætlega inn í þetta. Ég er búinn að spila tvo leiki og er nokkuð ánægður með mína frammistöðu,“ segir Kolbeinn.

Hann skoraði tvö mörk í 13 leikjum með Fylki í Pepsi-Max deildinni og segir dvölina þar hafa veitt aukið sjálfstraust.

„Dvölin í Árbænum hjálpaði mér klárlega, bæði fótboltalega og andlega. Það var gott að taka nokkra leiki með Fylki og ég er með nóg af sjálfstrausti.“

Viðtalið við Kolbein Birgi í heild sinni er hægt að sjá í spilaranum hér fyrir neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×