Innlent

Ráðherra stafi ekki sérstök hætta af hótun sem honum barst

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Vísir/EPA
Greining embættis ríkislögreglustjóra hefur leitt í ljós að utanríkisráðherra stafi ekki sérstök hætta af hótun sem honum barst. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Vísis vegna líflátshótana í garð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ráðherra.

Utanríkisráðuneytið greip til öryggisráðstafana í kjölfar þessara hótana sem Guðlaugi Þór barst á samfélagsmiðlum í tengslum við umræðu um þriðja orkupakkann.

Voru þessar hótanir tilkynntar til embættis ríkislögreglustjóra sem setti málið í skoðun. Embættið vildi ekki tjá sig um þessa skoðun þegar Vísir óskaði upplýsinga um framvindu hennar.

Var óskað eftir upplýsingum um hvort einhver hefði verið handtekinn eða yfirheyrður í tengslum við rannsóknina.

Í svari frá embættinu kom fram að ábendingin frá ráðuneytinu hefði farið í hefðbundinn farveg hjá löggæslusviði embættisins en aðrar upplýsingar voru ekki veittar því þær varða öryggismál æðstu stjórnar ríkisins.

Vísir sendi fyrirspurn á utanríkisráðuneytið þar sem spurt var hvort þessar öryggisráðstafanir væru enn við líði í ráðuneytinu.

Svarið barst í morgun en þar segir að samkvæmt greiningu lögreglunnar þyki nú ljóst að ráðherra stafi ekki sérstök hætta af hótun sem honum barst.

Þessi skrif á samfélagsmiðlum, sem túlkuð voru sem möguleg hótun, voru sett fram eftir að vefur Fréttatímans hafði velt því hvort Guðlaugur Þór og eiginkona hans muni hagnast um fleiri hundruð milljónir króna vegna þriðja orkupakkans.

Guðlaugur Þór hefur margoft útskýrt málið og sagt slíkar fullyrðingar fjarstæðukenndar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.