Innlent

Guðlaugi Þór hótað lífláti vegna þriðja orkupakkans

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Fréttablaðið/Stefán
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Fréttablaðið/Stefán
Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra hefur verið hótað lífláti í tengslum við þriðja orkupakkann. Hefur verið gripið til öryggisráðstafana í utanríkisráðuneytinu í kjölfar þeirra. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Guðlaugur Þór segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að þessar hótanir séu nú komnar inn á borð Ríkislögreglustjóra.

Í vor var birt frétt á vef Eyjunnar þess efnis að Guðlaugur Þór og eiginkona hans Ágústa Johnson hefðu mikla hagsmuni af innleiðingu þriðja orkupakkans. Var því haldið fram að þau gætu hagnast um milljarða gangi áform eftir um Búlandsvirkjun. Ástæðan væri sú að félag í eigu Ágústu eigi jörðina Hemrumörk í Skaftárhreppi.

Guðlaugur Þór svaraði þessum fréttaflutningi í vor þar sem hann sagði fjarstæðukennt að bera þessar sakir upp á þau hjónin og væri til marks um málefnafátækt þeirra sem eru á móti þriðja orkupakkanum.

Í gær birtist svo frétt á vef Fréttatímans þar sem því var velt upp hvort að þriðji orkupakkinn muni skila Guðlaugi Þór og Ágústu 625 milljónum króna í vasann vegna fyrrnefndra virkjanaáforma.

Á vef Fréttablaðsins kemur fram að í umræðu um þessa frétt Fréttatímans á samfélagsmiðlum séu dæmi um að Guðlaugi hafi verið hótað lífláti.

Guðlaugur Þór segir í skriflegu svari að hann sé ýmsu vanur en í þess tilfelli sé augljóst hver ásetningurinn er með „þessari svokölluðu fjölmiðlaumfjöllun“.

„Hins vegar er okkur ráðlagt að taka líflátshótanir alvarlega. Þær hótanir sem mér hafa borist á samfélagsmiðlum vegna þessarar fréttar hafa þegar verið settar í farveg hjá Ríkislögreglustjóra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×