Erlent

Úkraínumenn og Rússar skiptust á föngum

Samúel Karl Ólason skrifar
Volodymyr Zelenskiy, tók á móti föngunum.
Volodymyr Zelenskiy, tók á móti föngunum. AP/Forsetaembætti Úkraínu
Úkraínumenn og Rússar skiptust á föngum í dag eftir leynilegar viðræður á milli yfirvalda ríkjanna. Meðal þeirra sem voru frelsaðir úr haldi voru 24 úkraínskir sjóliðar sem handsamaðir voru í umdeildu atviki á Asóvshafi síðasta sumar. Meðal þeirra er einnig Volodymyr Tsemakh, sem grunaður er um aðild að atvikinu þegar farþegaþota Malaysian Airlines var skotin niður yfir yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, sem studdir eru af Rússum.



Hollenskir rannsakendur hafa lýst yfir áhyggjum af því að þeir muni ekki fá að ræða við Tsemakh um örlög farþegar og áhafnar farþegaþotunnar MH-17. Tsemakh er talinn hafa verið yfirmaður loftvarna aðskilnaðarsinna á því svæði þar sem flugvélin var skotin niður.



Yfirvöld Hollands hafa þegar lýst yfir vonbrigðum með að Tsemakh hafi verið sleppt úr haldi.

Hvor hlið frelsaði 35 fanga en mikill munur var á móttökum fanganna í Úkraínu og í Rússlandi. Í Úkraínu var mikill fögnuður á flugbraut Boryspil flugvallarins í Kænugarði, þar sem fjölskyldumeðlimir tóku á móti föngunum umkringd fjölmiðlafólki.

Í Rússlandi var blaðamönnum ekki veittur aðgangur að heimkomu fanganna og hafa yfirvöld Rússlands ekki opinberað nöfn þeirra Rússa sem sleppt var, eins og Úkraínumenn hafa gert.



Eins og áður segir voru 24 sjóliðar meðal þeirra 34 fanga sem Rússar hafa sleppt. Meðal þeirra var einnig úkraínski kvikmyndagerðarmaðurinn Oleg Sentsov sem var handtekinn á Krímskaga og dæmdur í tuttugu ára fangelsi árið 2015 fyrir að skipuleggja hryðjuverk. Evrópusambandið og Bandaríkin hafa fordæmt réttarhöldin gegn Sentsov og hefur hann verið skilgreindur sem pólitískur fangi Rússa.

Úkraínska blaðamanninum Roman Sushchenko var einnig sleppt úr haldi. Hann var handtekinn í Moskvu og sakaður um njósnir.

Þó Rússar hafi ekki opinberað hverjum Úkraínumenn slepptu segir BBC að blaðamaðurinn Kyrylo Vyshynsky sé einn þeirra. Hann er hálfur Úkraínumaður og Rússi og yfirvöld Úkraínu sökuðu hann um landráð. Þá mun tveimur úkraínskum hermönnum, sem sakaðir voru um að ganga til liðs við Rússa, þegar þeir innlimuðu Krímskaga frá Úkraínu, hafa verið sleppt.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×