Erlent

Starfsmenn verslana lítið til í að skamma byssueigendur

Samúel Karl Ólason skrifar
22 voru myrtir í skotárás í Walmart í El Paso í Texas.
22 voru myrtir í skotárás í Walmart í El Paso í Texas. AP/Andres Leighton
Starfsmenn verslana eins og Walmart og Kroger í Bandaríkjunum eru lítið spenntir fyrir því að þurfa að framfylgja nýjum stefnum fyrirtækjanna um að biðja eigendur skotvopna um að bera byssur sínar ekki í verslununum. Forsvarsmenn Walmart, Kroger og annarra verslanakeðja tilkynntu í vikunni að þeir myndu biðja viðskiptavini um að bera ekki vopn í verslunum keðjanna, jafnvel í ríkjum þar sem vopnaburður er leyfilegur.Reglur þessar eru enn í þróun en Bloomberg segir um tvær milljónir starfsmanna fyrirtækjanna ekki vera ánægða með að þurfa mögulega að biðja vopnað fólk um að geyma byssurnar út í bíl eða yfirgefa verslanirnar. Þeir eru sérstaklega ekki spenntir fyrir því að þurfa að takast á við afleiðingar þess ef tilteknir viðskiptavinir neita að verða við beiðnum þeirra.Einn viðmælandi Bloomberg, sem stýrir stóru verkalýðsfélagi starfsmanna verslana segir ljóst að enginn hafi hugmynd um það hvernig fylgja eigi reglunum eftir. Talsmaður Kroger sagði starfsmenn fyrirtækisins vera að skoða málið með starfsmönnum annarra fyrirtækja. Einn viðmælandi sem starfar hjá Walmart sagði ráð gert fyrir því að verslunarstjórar eða öryggisverðir ræði við fólk sem komi í verslanirnar með skotvopn.Fleiri fyrirtæki bætast í hópinn

Tvær mannskæðar skotárásir hafa átt sér stað í verslunum Walmart í sumar en slíkar árásir eru reglulegar í Bandaríkjunum. Undanfarið hafa forsvarsmenn sífellt fleiri fyrirtækja tekið upp á því að hætta að selja skotvopn eða að selja eingöngu veiðiriffla, eins og Walmart hefur gert.Samtök byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA, hafa fordæmt fyrirtækin og í yfirlýsingu sem beindist sérstaklega að Walmart segir að það sé skammarlegtlegt að forsvarsmenn Walmart hafi látið undan þrýstingi „elítunnar“ sem beiti sér gegn byssum og að frelsiselskandi Bandaríkjamenn muni snúa sér að öðrum verslunum.Margar af verslunum Walmart eru staðsettar í dreifbýlli byggðum þar sem stuðningur við byssueign er meiri en víða annars staðar í Bandaríkjunum. Í skilaboðum til starfsmanna í kjölfar ákvörðunar Walmart sagði Doug McMillon, framkvæmdastjóri fyrirtækisins að núverandi ástand væri ólíðandi. Hann sagði einnig að í kjölfar skotárása í verslunum Walmart hafi aðilar gert sér sérstakar ferðir í verslanir Walmart með byssur og þá eingöngu til þess að hræða starfsmenn og viðskiptavini verslananna.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.