Íslenski boltinn

Björn Daníel: Daninn fljúgandi gjörsamlega geggjaður

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Björn Daníel fagnar með Pétri Viðarssyni fyrr í sumar.
Björn Daníel fagnar með Pétri Viðarssyni fyrr í sumar. vísir/bára
„Þetta var geggjað,“ sagði fyrirliði FH í kvöld, Björn Daníel Sverrisson, eftir frábæran sigur liðsins á Stjörnunni í stórleik 19. umferðar.

„Mér fannst leikurinn jafn í fyrri hálfleik. Þeir skora þetta mark, geggjað mark en mér fannst við svo töluvert betri í seinni hálfleik og Daninn fljúgandi skoraði svo þrjú fyrir okkur,“ sagði Björn Daníel ánægður með Morten Beck sem skoraði þrennu í kvöld.

„Hann hefur passað fullkomlega inn í þetta hjá okkur, hann skorar mörk og leggur sig alltaf 100% fram. Hann var ekki búinn að spila mikið þegar hann kom til okkar en er kominn í gott leikform núna. Hann skorar þrennu í dag og hann bara vinnur þennan leik fyrir okkur, gjörsamlega geggjaður.“

FH fór 1-0 undir inn í hálfleik eftir að hafa fengið mark á sig á loka mínútu fyrri hálfleiks. Stjarnan hafði haft yfirhöndina en FH náði öllum tökum á leiknum snemma í síðari hálfleik. Björn Daníel segir að einstaklings framtök hafi skilað þeim sigrinum og hrósar einnig innkomu Jónatans Inga Jónssonar sem kom með mikinn kraft inní sóknarleik FH.

„Við vorum grimmari í tæklingum, unnum boltann hærra upp á vellinum og fórum í skyndisóknir. Við vorum lélegir að klára sóknirnar í fyrri hálfleik en kláruðum þær vel í seinni.

Svo voru líka bara einstaklings framtök að skila, geggjað hjá Jónatani í öðru markinu þegar hann fór framhjá einhverjum fjórum gaurum og leggur upp mark. Hann er í liðinu okkar til að gera svona hluti og hann var með frábæra innkomu í dag.“

FH byrjaði mótið illa en er nú í 3. sæti deildarinnar og framundan er úrslitaleikurinn í Mjólkurbikarnum. Björn Daníel viðurkennir að þeir séu að byrja full seint en að liðið sé á góðum stað núna og markmiðin eru skýr.

„Mér finnst kominn ákveðinn rythmi í þetta hjá okkur, miklu meiri liðs frammistaða í öllu sem við gerum. Við erum kannski að byrja full seint en við stefnum á topp 3 og bikarmeistaratitil.“

Björn segir það gríðarlega mikilvægt að hafa klárað leikinn í dag með sigri upp á móralinn að gera og að þeir fari nú fullir sjálfstraust inn í bikarúrslitin.

„Það er bara mjög mikilvægt, sérstaklega fyrir móralinn. Það eru tvær vikur í næsta leik og geggjað að vera bara einir í þriðja sæti fyrir bikarúrslitin í staðinn fyrir að fara með tap á bakinu og þurfa að bíða í tvær vikur þá er þetta mjög sætt,“ sagði Björn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×