Íslenski boltinn

Anton Ari til Breiðabliks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton Ari hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með Val og tvisvar sinnum bikarmeistari.
Anton Ari hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með Val og tvisvar sinnum bikarmeistari. vísir/bára
Markvörðurinn Anton Ari Einarsson gengur til liðs við Breiðablik eftir tímabilið, þegar samningi hans við Val lýkur. Þetta kemur fram á heimasíðu Breiðabliks.

Anton Ari var aðalmarkvörður Vals þegar liðið varð Íslandsmeistari 2017 og 2018 en hefur fengið fá tækifæri eftir að landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson kom heim frá Qarabag.

Anton Ari, sem verður 25 ára á sunnudaginn, er uppalinn hjá Aftureldingu. Hann gekk í raðir Vals 2014. Fyrri hluta þess tímabils lék hann með Tindastóli í næstefstu deild. Anton Ari lék svo einn leik með Grindavík í Inkasso-deildinni 2016.

Mosfellingurinn hefur alls leikið 77 leiki í efstu deild á Íslandi. Hann á tvo leiki fyrir íslenska A-landsliðið á ferilskránni.

Gunnleifur Gunnleifsson hefur verið aðalmarkvörður Breiðabliks undanfarin ár og skrifaði undir nýjan eins árs samning við félagið á 44 ára afmælisdaginn sinn í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×