Innlent

Hefur ekki á­hyggjur af fram­tíð Sjálf­stæðis­flokksins

Sylvía Hall skrifar
Bjarni sagðist vissulega líta til skoðanakannanna en eina mælingin á fylgi sem skipti máli væri það fylgi sem flokkurinn fengi í kosningum.
Bjarni sagðist vissulega líta til skoðanakannanna en eina mælingin á fylgi sem skipti máli væri það fylgi sem flokkurinn fengi í kosningum. Vísir/Vilhelm
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi stöðu Sjálfstæðisflokksins, um meintan klofning innan hans og fylgi flokksins undanfarna mánuði í viðtali í Kastljósi í kvöld. Þá tjáði sig hann um orðróm um brotthvarf hans úr stjórnmálum, sem hann gaf lítið fyrir.

Í upphafi viðtals var farið yfir niðurstöður nýjustu kannanna MMR þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur mælst 19,1 prósent. Á sama tíma hefur Miðflokkurinn sótt í sig veðrið og aukið við sig fylgi sem margir rekja beint til umræðu um þriðja orkupakkann.

Bjarni sagðist ekki hafa áhyggjur af því að flokkurinn myndi fara illa út úr orkupakkamálinu þrátt fyrir óánægjuraddir. Flokksforystan hefði átt í góðu samtali við flokksmenn, haldið tugi opinna funda og hlustað á þau sjónarmið hafa komið fram vegna málsins innan flokksins. Þrátt fyrir minnkandi fylgi í könnunum væru kosningar eina mælingin sem raunverulega skipti máli.

„Ég er í liði með þeim sem segjast vilja sækja meira fylgi og ég tel að við höfum málefnalega stöðu til þess að gera það,“ sagði Bjarni en hann teldi þó landslagið hafa gjörbreyst á síðustu tíu árum með tilkomu nýrra og minni flokka.

Finnur enn gleðina í stjórnmálum

Umræða um brotthvarf Bjarna úr stjórnmálum hefur flogið hátt undanfarna mánuði en hann hefur sjálfur neitað því að hann hyggist hætta á næstunni. Í viðtali við Stöð 2 á 90 ára afmæli flokksins þvertók hann fyrir þessar vangaveltur og sagðist enn eiga eftir að fylgja eftir mikilvægum málum. Sömuleiðis tjáði tengdafaðir Bjarna sig um orðróminn og sagði hann vera til þess fallinn að ala á tortryggni.

Sjá einnig: Tengdafaðirinn gefur lítið fyrir orðróm um brotthvarf Bjarna

„Ég er auðvitað tiltölulega nýlega búinn að gefa kost á mér sem formaður. Ég efndi hérna til stjórnarsamstarfs við tvo flokka til þess að bæði auka stjórnmálalegan stöðugleika að nýju í landinu og ná ákveðnum markmiðum, til dæmis í efnahagsmálum og fyrir efnahagslegan stöðugleika í landinu og ég ætla ekkert að hlaupa frá því verki,“ sagði Bjarni aðspurður hvort gleðin væri enn til staðar.

Hann sagðist hafa fengið einstakan stuðning frá flokksmönnum á síðasta landsfundi og hann brenni enn fyrir þeim verkefnum sem hann sé að sinna. Starfið sé þó krefjandi en gleðin fylgi því að sjá framgang mikilvægra mála.

„Þegar ég horfi til baka núna tíu ár aftur í tímann og skoða hvað mikið hefur breyst og frá 2013 þennan tíma sem ég hef setið í ríkisstjórn og verið í ráðuneytinu, þá hafa svo mörg mál fengið farsælan endi og staðan á Íslandi batnað svo mjög til hins betra að það er alveg sérstök ánægja að fara yfir það og sjá hversu bjart er fram undan.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.