Innlent

Þingflokkurinn geti ekki „hlaupið til“ eftir því hvernig „einhver skoðanakönnun innan Sjálfstæðisflokksins kemur út“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sigríður Andersen segir að ekki sé ástæða til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann.
Sigríður Andersen segir að ekki sé ástæða til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann. Vísir/Vilhelm

Sigríður Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir að undirskriftasöfnun flokksbundinna Sjálfstæðismanna til höfuðs þriðja orkupakkanum hafi komið upp á síðustu stundu. Flokksmenn velti nú fyrir sér hvað eigi síðan að gera við undirskriftalistann því þingmenn séu einungis bundnir af sannfæringu sinni í því fulltrúalýðræði sem við lýði er.

Sigríður var gestur í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun og ræddi um þriðja orkupakkann. Málið reynist nú Sjálfstæðisflokknum flókið því nokkrir félagsmenn hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem hvatt er til þess að efnt verði til atkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann innan Sjálfstæðisflokksins.

Sjá nánar: Sjálfstæðismenn safna undiskriftum

„Nú er þetta nýtt fyrirbæri í skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins og menn hafa verið að velta fyrir sér hvernig þetta virki svona í reynd, hvernig er hægt að safna svona nöfnum og hvað eigi síðan að gera við það. Af því að það liggur auðvitað alveg fyrir að þingmenn geta ekki bara hlaupið til eftir því hvernig einhver skoðanakönnun innan Sjálfstæðisflokksins kemur út. Það er ekki þannig. Menn þekkja nú þessa umræðu. Þingmenn eru auðvitað bara bundnir af sannfæringu sinni.“

Stjórnmálamenn þurfi að vera trúir sannfæringu sinni.

„Ég segi nú alltaf, það er alltaf þægilegast að vera svoleiðis stjórnmálamaður að hlusta bara á sjálfan sig og taka tillit til eigin samvisku í þessum málum en ekki skipta um skoðun eða sveiflast eins og lauf í vindi eftir hvernig vindar blása á hverjum tíma. Hitt er annað mál og hugsunin að sjálfu sér á bak við þessar breytingar á skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins hafa trúlega verið einmitt þær að efla kannski einhverja aðkomu almennra flokksmanna að stefnumótun á milli landsfunda. En það er samt sem áður þannig að stefna Sjálfstæðisflokksins er mótuð á landsfundi svona heilt yfir.“

Sigríður varð spurð hvort ákvarðanir um auðlindir Íslands ættu ekki að vera í höndum Þjóðarinnar og hvort til greina kæmi að þjóðin fengi að kjósa um lagningu sæstrengs.

„Að mínu mati, ekki frekar en aðrar stórar ákvarðanir. Við erum hérna með fulltrúalýðræði og ef við ætlum að skipta – og það kann að vera að það sé alveg frábært kerfi […] að vera með kosningar um allt og ekkert, það getur vel verið að það sé en við erum ekki með þannig kerfi og ég tel ekki til farsældar fallið að hafa bæði kerfi þar sem er fulltrúalýðræði það sem fólk fær greitt til að setja sig inn í hlutina […] og hitt líka að allur almenningur þurfi að vera í þessu máli,“ sagði Sigríður.

Hún sagði að ástæðan fyrir því að hún væri almennt á móti þjóðaratkvæðagreiðslum um svona mál sé sú að erfitt væri að ákvarða hvar ætti að draga línuna.

„Ætlum við að kjósa til dæmis um það hvort við ætlum að leyfa frjálsan útflutning á fiski? Af hverju ættum við að stoppa þar? Það eru önnur mál sem eru stærri. Mér finnst þetta nokkuð mikið smámál.“

Bjarni Benediktsson sagði á opnum fundi í Valhöll um helgina að mikil tækifæri væru fólgin í nýjum skipulagsreglum flokksins.

Í viðtalinu var Sigríður spurð út í orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann lét falla í kvöldfréttum eftir opinn fund í Valhöll á laugardag sem einhverjir túlkuðu sem svo að flokksforystan virti vilja flokksmanna að vettugi.

„Það var nú þvert á móti annað sem kom fram í máli formannsins á fundinum. Hann tók auðvitað fram það sem ég tek auðvitað heilshugar undir og við öll þingmenn flokksins, að sjálfsögðu og í rauninni auðvitað allir ættu að gera sem standa í stjórnmálum í rauninni í sama hvaða flokki þeir eru, að þessi umræða er auðvitað mjög mikilvæg og á hana er auðvitað hlustað og það er ekki eins og menn hafi skeytt engu í tengslum við þessa umræðu heldur einmitt látið hana skipta máli.“

Í ræðu sinni á fundinum í Valhöll sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að tækifæri væru í nýjum skipulagsreglum flokksins.

„Að sjálfsögðu gerum við okkur grein fyrir því ef flokksforystan, þingflokkurinn, forystumenn kjördæma, þingmenn og aðrir lenda upp á kant við hinn almenna vilja flokksmanna þarf ekkert að spyrja að leikslokum. Það eru þá ekki hinir kjörnu fulltrúar sem hafa yfirhöndina að minnsta kosti ekki nema í mjög skamman tíma.“

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, velti fyrir sér hvort leiksýning væri í gangi.vísir/vilhelm

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, brást við viðtalinu við Sigríði í morgun og sagðist halda að atkvæðagreiðslan væri sýning.

„Andstæðingar O3 virðast vera að safna undirskriftum 5000 flokksmanna, telja hana verða búna á næstu tveimur vikum. Ef það tekst á miðstjórn flokksins að koma saman, og fara í allsherjaratkvæðagreiðslu innan flokksins. Þá verður málinu hins vegar löngu lokið á Alþingi svo maður veltir óneitanlega fyrir sér hvort þetta sé allt eitt stórt leikhús hjá þeim til að láta líta út fyrir að þetta sé eitthvað til umræðu hjá stjórn flokksins.“

Sigríður sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af því að hér yrði lagður sæstrengur á næstu árum.

„En ég velti því fyrir mér hins vegar og það er umræða sem við ættum að taka til dæmis í framhaldi og undir liðnum orkustefna stjórnvalda, ástæðan fyrir því að það er ekki möguleiki að vera með sæstreng því orkuverðið er svo hátt í Evrópu að það myndi aldrei borga sig að tappa af rafmagn til Evrópu, það myndi ekki svara kostnaði að leggja strenginn. En segjum að það breytist. Væru menn virkilega þá á móti því að fá aukatekjur inn í ríkissjóð með því að selja þangað rafmagn? Við eigum alveg eftir að taka þá umræðu.“

Bjarni sagði um helgina að innan skamms yrði tilkynnt hver yrði næsti dómsmálaráðherra. Hann sagði að Sigríður ætti afturkvæmt í ríkisstjórnina en vildi þó ekki segja hver yrði skipaður.

Sigríður var í viðtalinu spurð hvort hún yrði skipuð dómsmálaráðherra.

„Ja, við sjáum til með það.“

Í spilaranum hér að neðan er hægt að hlusta á viðtalið við Sigríði Andersen sem fjallaði vítt og breitt um orkumál.


Tengdar fréttir

Sjálfstæðismenn safna undirskriftum gegn 3. orkupakkanum

Með framtakinu nýtir Jón Kári sér 6. grein skipulagsreglna flokksins sem kveður á um að miðstjórn Sjálfstæðisflokksins skuli boða til atkvæðagreiðslu ef að minnsta kosti fimm þúsund flokksbundnir félagar óska eftir því.

Fullt út úr dyrum í Val­höll

Fullt er út úr dyrum í Valhöll en klukkan ellefu hófst þar fundur þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræðir stjórnmálaviðhorfið og situr hann ásamt öðrum þingmönnum fyrir svörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×