Innlent

Samfylkingin eykur fylgi sitt um þriðjung

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. visir/vilhelm

Samfylkingin bætir við sig rúmlega fjórum prósentustigum í nýrri könnun MMR, samanborið við fylgi flokksins í júlímánuði. Er nú svo komið að Samfylkingin nýtur næst mests fylgis, 16,8 prósent, á eftir Sjálfstæðisflokki sem mælist með 19,1 prósent stuðning rétt eins og í fyrri mánuði.

Fylgi Pírata hefur, rétt eins og Samfylkingarinnar, sveiflast mikið frá fyrri könnun. Fylgi Pírata mældist nú 11,3 prósent en var um 14,1 prósent í síðustu könnun og hefur stuðningurinn við flokkinn því dregist saman um nær 3 prósentustig á milli mánaða.

Aðrar sveiflur eru minni. Framsókn bætur við sig rúmum tveimur prósentustigum og mælist stuðningurinn nú 10,4 prósent, Flokkur fólksins tapar um 2 prósentustiga stuðningi milli mánaða og þá minnkar stuðningur Vinstri grænna um eitt prósentustig. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 38,8 prósent, samanborið við 40,3 prósent í síðustu könnun.

Alls svöruðu 990 manns könnun MMR, sem framkvæmd var dagana 12. til 19. ágúst. Álitsgjafar MMR eru sagðir valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.

Nánari útlistun á niðurstöðum MMR má sjá hér að neðan.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 19,1% og mældist 19,1% í síðustu könnun.

Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 16,8% og mældist 12,4% í síðustu könnun.

Fylgi Miðflokksins mældist nú 13,0% og mældist 12,4% í síðustu könnnun.

Fylgi Vinstri grænna mældist nú 11,5% og mældist 12,5% í síðustu könnun.

Fylgi Pírata mældist nú 11,3% og mældist 14,1% í síðustu könnun.

Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 10,4% og mældist 8,3% í síðustu könnun.

Fylgi Viðreisnar mældist nú 9,3% og mældist 9,9% í síðustu könnun.

Fylgi Flokks fólksins mældist nú 4,1% og mældist 6,8% í síðustu könnun.

Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 2,9% og mældist 3,4% í síðustu könnun.

Fylgi annarra flokka mældist 1,6% samanlagt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.