Íslenski boltinn

Sjóðheitur Brandur ánægður með lífið á Íslandi: „Tók tíma að ná fyrri styrk“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brandur er á sínu öðru tímabili hjá FH.
Brandur er á sínu öðru tímabili hjá FH. mynd/stöð 2
Færeyski miðjumaðurinn Brandur Olsen hefur farið mikinn með FH upp á síðkastið. Hann skoraði eitt mark í 3-1 sigrinum á KR í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og bæði mörk FH í 2-1 sigrinum á Fylki í Pepsi Max-deildinni á sunnudaginn.

Brandur kom hingað til lands í fyrra eftir að hafa leikið í Danmörku í nokkur ár. Hann meiddist illa er hann lék með Randers en hefur náð sér á strik á nýjan leik.

„Það er meiri kraftur í mér en það tók tíma að ná fyrri styrk. Ég vil bara halda áfram að spila, gera mitt besta og svo sjáum við hverju það skilar,“ sagði Brandur í samtali við Hörð Magnússon í Sportpakkanum.

Brandur byrjaði tímabilið vel en missti svo dampinn.

„Ég kann ekki skýringu á því,“ sagði Brandur aðspurður um niðursveifluna. Hann hefur hins vegar náð sér vel á strik í síðustu leikjum.

„Í fótbolta eru hæðir og lægðir. Þú skorar, skorar ekki. Spilar vel, spilar illa. En núna hefur liðið leikið vel sem gerir þetta auðveldara fyrir einstaklingana.“

Brandur segir að Pepsi Max-deildin sé betri en hann gerði sér grein fyrir.

„Í fyrsta viðtalinu mínu hérna sagði ég að það hefði komið mér á mjög óvart hversu sterkt FH-liðið og deildin er. Ég er enn þeirra skoðunar. Ég er ánægður að vera hérna. Þetta er krefjandi fyrir mig og deildin er sterk,“ sagði Brandur.

Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×