Gylfi tekinn af velli þegar Everton tapaði gegn nýliðunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gylfi Sigurðsson í baráttu við Douglas Luiz í leiknum í kvöld.
Gylfi Sigurðsson í baráttu við Douglas Luiz í leiknum í kvöld. vísir/getty
Nýliðar Aston Villa lögðu Everton 2-0 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Villa komst yfir í fyrri hálfleik og tryggði sigurinn með marki á lokasekúndum leiksins.

Fyrir leikinn var Everton með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki deildarinnar en Aston Villa stigalaust eftir töp gegn Tottenham og Bournemouth. Gylfi Þór Sigurðsson var að sjálfsögðu á sínum stað í byrjunarliði Everton sem hafði aðeins skorað eitt mark í deildinni.

Það breyttist ekki í kvöld. Aston Villa komst yfir á 22.mínútu með marki Wesley sem kláraði færið sitt vel eftir frábæra sendingu innfyrir vörnina frá Jota.

Staðan í hálfleik var 1-0. Marco Silva gerði breytingar eftir hlé og var Gylfi Þór fyrsta fórnarlamb þeirra. Hann fór af velli á 61.mínútu fyrir Alex Iwobi sem gekk til liðs við Everton frá Arsenal rétt fyrir lok félagaskiptagluggans.

Það var einmitt Iwobi sem átti stóran þátt í að skapa hættulegasta færi Everton í leiknum í uppbótartíma. Hann lagði boltann fyrir markið á Theo Walcott, sem þá var nýkominn inn sem varamaður, en Walcott fór illa að ráði sínu og setti boltann vel yfir markið.

Á 95.mínútu gulltryggði Anwar El Ghazi síðan sigur Aston Villa þegar hann skoraði eftir skyndisókn og góða sendingu frá John McGinn. Fyrsti sigur nýliðanna staðreynd og fögnuðurinn mikill á Villa Park.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira