Íslenski boltinn

Rúnar Páll á leið í bann eftir að hafa fengið 75 prósent gulu spjaldanna frá sama fjórða dómara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Bára
Sami fjórði dómari er nánast upp á sitt einsdæmi búinn að koma þjálfara Stjörnumanna í leikbann á lokakafla Íslandsmótsins.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, er á leiðinni í leikbann í Pepsi Max deild karla í fótbolta eftir að hafa fengið sitt fjórða gula spjald í jafnteflisleik á móti Val í gær.

Rúnar Páll Sigmundsson benti á það í viðtali við vefsíðuna fótbolti.net að hann sé alltaf að fá gult spjald frá sama fjórða dómara.

„Jóhann fjórði dómari átti ekki sinn besta leik og ég er bara mjög heitur út í þá og fékk spjald þegar einhverjar 30 sekúndur voru eftir. Ég held að þetta sé fjórða spjaldið sem Jóhann gefur mér sem fjórði dómari, hann er greinilega eitthvað viðkvæmur," sagði Rúnar Páll við fótbolti.net eftir leikinn í gær.

Rúnar Páll fékk líka gul spjöld í deildarleikjum á móti HK í Kórnum, á móti KR á KR-velli og á móti KR í Garðabænum. Jóhann Ingi Jónsson var líka fjórði dómari í báðum leikjunum á móti KR. Í HK-leiknum var Elías Ingi Árnason fjórði dómari.

Rúnar Páll fékk gula spjaldið sitt á fimmtu mínútu í uppbótatíma í leiknum í gær en hin gulu spjöldin komu á 33. mínútu á KR-vellinum, á fimmtu mínútu í uppbótatíma í Garðabænum og á 79. mínútu í Kórnum.

Þetta var því í annað skiptið í sumar þar sem Jóhann Ingi Jónsson lætur spjalda Rúnar Páll þegar komið er fram á fimmtu mínútu í uppbótatíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×