Enski boltinn

Búið að jarða Bury og Bolton hefur tvær vikur til þess að bjarga sér

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stuðningsmenn Bury grétu í gær og jörðuðu félagið sitt með táknrænni athöfn.
Stuðningsmenn Bury grétu í gær og jörðuðu félagið sitt með táknrænni athöfn. vísir/getty
Fjárhagsvandræði rótgróinna enskra félaga eru í sviðsljósinu í dag. Búið er að reka eitt elsta félag Englands, Bury, úr keppni og Bolton rambar á barmi gjaldþrots.

Bolton var í gærkvöldi gefinn lokafrestur til þess að bjarga sínum málum. Sá frestur er tvær vikur. Á þeim tíma verður félagið að fá nýjan eiganda eða útvega fjármagn til þess að reka félagið í vetur. Ef það tekst ekki verður félagið rekið úr keppni.

Bolton hefur verið í gjörgæslu síðan í maí en afar illa hefur gengið að semja við áhugasama kaupendur. Það er nú eða aldrei ef þetta gamla Íslendingafélag ætlar ekki að fara í þrot.

Bury gekk sömuleiðis illa að ganga frá yfirtöku á félaginu og eftir að það mistókst í gær var félagið rekið úr ensku deildakeppninni þar sem það er gjaldþrota.

Bury var í C-deildinni. Félagið var stofnað árið 1885 og hóf að taka þátt í deildarkeppni níu árum síðar. Félagið hefur tvisvar unnið enska bikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×