Innlent

Rafstuðtæki sem notað var í árás á skólalóð í Kópavogi var keypt á netinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Kópavogi.
Frá Kópavogi. FBL/Anton
Rafstuðtæki sem fjórir drengir notuðu til að ráðast á 15 ára dreng á skólalóð í Kópavogi í gærkvöldi var keypt á netinu. Þetta segir Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi í Kópavogi, í samtali við Vísi.

Lögreglan greindi frá þessari árás í dagbók sinni í morgun.

Þar kom fram að fjórir drengir, á aldrinum 16 – 18 ára, réðust á fimmtán ára gamlan dreng í Kópavogi í gærkvöldi. Reyndin er sú að sá sem fyrir árásinni varð sat með þremur til fjórum til viðbótar á skólalóðinni við Hörðuvallaskóla og veittust drengirnir fjórir á hópinn.

Þessi drengur sem var hins vegar tilgreindur í dagbók lögreglunnar var sá eini sem var með sjáanlega áverka eftir árásina en foreldrar hans fluttu hann á slysadeild.

Drengirnir fjórir sem stóðu fyrir árásinni óku burt af vettvangi en voru handteknir í Rofabæ á tólfta tímanum í gærkvöldi og færðir á lögreglustöð til skýrslutöku.

Lögreglan tók rafstuðtæki, hníf og fleiri hluti af drengjunum sem stóðu fyrir árásinni. Heimir segir einn þeirra hafa upplýst við yfirheyrslu að hann keypti rafstuðtæki á netinu.

Heimir segir að á þessari stundu sé ekki á hreinu hver ástæða árásarinnar var en hóparnir tveir virðast ekki hafa þekkst.

Drengirnir fjórir sem stóðu fyrir árásinni eru sem fyrr segir á aldrinum 16 til 18 ára en Heimir segir þá alla á sakhæfisaldri og lögregla líti þessa árás mjög alvarlegum augum.


Tengdar fréttir

Ráðist á unglinga með rafbyssu í Kópavogi

Fjórir til fimm drengir á aldrinum 16 til 18 ára réðust á unglinga á skólalóð í Kópavogi í gærkvöldi. Að sögn lögreglunnar notuðu drengirnir rafbyssu, svokallaðan tacer, til árásárinnar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×