Erlent

Óttast að dularfullar sprengingar tengist nýjum kjarnavopnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússnesk flugskeyti hefja sig á loft. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Rússnesk flugskeyti hefja sig á loft. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/Getty
Bandaríska leyniþjónustan reynir nú að komast til botns í dularfullum sprengingum sem hafa skekið rússneskar herstöðvar síðustu vikuna. Grunur leikur á að þær gætu tengst tilraunum á nýrri kjarnorkustýriflaug rússneskra stjórnvalda.

Að minnsta kosti sjö manns, þar á meðal vísindamenn, fórust á æfingasvæði hersins í Arkhangelsk-héraði á fimmtudag. Aukin geislun mældist í nærliggjandi borg í kjölfarið. Yfirvöld sögðu að slys hefði orðið við tilraun með eldflaugarhreyfil með fljótandi eldsneyti og að geislun hafi verið eðlilegt eftir það.

New York Times segir mögulegt að slysið hafi verið alvarlegasta kjarnorkuslys í Rússlandi frá Tsjernóbílslysinu í Úkraínu árið 1986. Úkraína tilheyrði þá Sovétríkjunum. Rússnesk stjórnvöld hafa eins og þá látið fátt uppi um slysið. Reuters-fréttastofan sagði frá því í síðustu viku að tilkynning borgaryfirvalda í Severodvinsk um aukna geislun eftir slysið hafi horfið skyndilega af netinu.

Kjarnorkustofnun Rússlands viðurkenndi í fyrsta skipti í gærkvöldi að slysið hafi orðið þegar sprenging varð í litlum kjarnakljúfi við tilraun á Hvítahafi. Fimm starfsmenn hennar létu lífið.

Leyniþjónustu Bandaríkjanna grunar að slysið tengist frumgerð að stýriflaug sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur stært sig af undanfarið. Pútín hefur sagt að flaugin geti náð hvert sem er á jarðkringlunni vegna þess að hún sé knúin litlum kjarnaofni. Atlantshafsbandalagið hefur nefnt flaugina „SSC-X-9 Skýfall“.

Bandarísk yfirvöld óttast eldflaugina. Hún geti flogið lágt og á óútreiknanlegan hátt þannig að eldflaugavarnarkerfi landsins geti ekki stöðvað hana. Bandaríkjastjórn dró sig út úr sáttmála við Rússland sem átti að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kjarnavopna nýlega og vísaði til ítrekaðra brota Rússa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×