Erlent

Tekju­lágir inn­flytj­endur ó­lík­legri til að fá land­vistar­leyfi vegna nýrra laga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ken Cuccinelli, yfirmaður innflytjenda- og ríkisborgarastofnunar Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu á mánudag.
Ken Cuccinelli, yfirmaður innflytjenda- og ríkisborgarastofnunar Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu á mánudag. ap/evan vucci
Ríkisstjórn Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, hyggst gera löglegum innflytjendum það erfiðara fyrir að framlengja landvistarleyfi sitt eða að fá græna kortið (varanlegt landvistarleyfi). Frá þessu er greint á vef fréttastofu AP.

Reglan mun koma sér verst fyrir innflytjendur sem þurfa á einhvers konar stuðningi að halda, til dæmis matargjöfum og félagsíbúðum, í meira en eitt ár.

Telji ríkið að innflytjendurnir séu líklegir til að þurfa að þiggja slíkar gjafir í framtíðinni getur það hafnað umsókn þeirra.

Talsmenn yfirvalda segja regluna framfylgja „hugsjónum um sjálfbærni“ einstaklinga.

Breytingartillagan var birt í samráðsgátt stjórnvalda vestanhafs (e. Federal Register) á mánudag og á hún að taka gildi 15. október.

Ekki er talin hætta á að innflytjendur sem þegar hafa varanlegt landvistarleyfi í Bandaríkjunum verði fyrir áhrifum breytinganna. Þá mun reglubreytingin ekki hafa áhrif á flóttafólk og hælisleitendur.

Breytingin mun gilda fyrir þá sem sækjast eftir lengra landvistarleyfi, græna kortinu eða ríkisborgararétti.Þeir einstaklingar sem ekki hafa nægilega háar tekjur, eru taldir líklegir til að þurfa að þiggja þjónustu líkt og sjúkraþjónustu frá ríkinu (e. Medicaid) eða búa í félagsíbúðum í framtíðinni gæti verið synjað um inngöngu í landið. Reglan mun gilda yfir þá sem þegar eru í Bandaríkjunum en sækjast eftir þessum breytingum.

Talið er að löglegir innflytjendur í Bandaríkjunum sem ekki eru orðnir ríkisborgarar séu í kring um 22 milljónir.

Breytingartillagan hefur verið harðlega gagnrýnd af hópum sem berjast fyrir borgararéttindum þar sem breytingarnar koma sérstaklega niðri á innflytjendum sem eru tekjulitlir. Þá hefur The National Immigration Law Center (NILC) sagst ætla að kæra Trump stjórnina til að koma í veg fyrir að lögin taki gildi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.