Erlent

Danir hæðast að áhuga Trump á að kaupa Grænland

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Nuuk á Grænlandi.
Frá Nuuk á Grænlandi. Vísir/Getty
Fréttum af áhuga Donalds Trump Bandaríkjaforseta á að kaupa Grænland hefur verið tekið með vantrú og háði í Danmörku. Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, telur að aprílgabb á röngum árstíma hljóti að vera á ferðinni.

Wall Street Journal sagði frá því í gær að Trump hefði ítrekað spurt ráðgjafa sína út í möguleikann á að kaupa Grænland. Auðlindir eyjunnar og hernaðarlegt mikilvægi virðist hafa verið það sem kveikti áhuga forsetans. Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildum sínum að sumir ráðgjafanna hafi aðeins hlegið að hugmyndinni en aðrir hafi tekið hana mun alvarlegar.

Grænland er sjálfstjórnarsvæði innan Danmerkur með eigin landstjórn. Danir fara þó enn með utanríkis- og varnarmál fyrir Grænlendinga.

„Við erum opin fyrir viðskiptum en við erum ekki til sölu,“ segir Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands.

Sumir danskir stjórnmálamenn virtust taka fréttunum undran.

„Þetta hlýtur að vera aprílgabb. Algerlega á röngum árstíma,“ tísti Rasmussen um fréttirnar af áhuga Trump.

„Ef hann er í raun og veru að íhuga þetta þá er það lokasönnun þess að hann hafi gengið af göflunum. Sú hugmynd af Danmörk seldi 50.000 borgara til Bandaríkjanna er algerlega fáránleg,“ segir Søren Espersen, talsmaður Þjóðarflokksins í utanríkismálum.

Mette Fredriksen, forsætisráðherra, og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra, eru sögð ætla að tjá sig um fréttirnar síðar í dag.

„Ég er viss um að meirihlutinn á Grænlandi telur að það sé betra að vera í sambandi við Danmörku en Bandaríkin til lengri tíma litið,“ segir Aaja Chemnitz Larsen, þingmaður grænlenska flokksins Inuit Ataqatigiit á danska þjóðþinginu.


Tengdar fréttir

Eldarnir á Grænlandi erfiðir við að eiga

Óttast er að jarðvegseldar á Vestur-Grænlandi gæti brunnið í marga mánuði eða ár verði þeir ekki stöðvaðir. Íslenskir slökkviliðsstjórar segja erfitt að eiga við elda sem þessa.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×