Íslenski boltinn

Elfar á í hættu að missa af bikarsumrinu 2020

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elfar Freyr Helgason í leik með Blikum
Elfar Freyr Helgason í leik með Blikum vísir/bára

Elfar Freyr Helgason gæti misst af allri bikarkeppninni á næsta ári fari svo að aga- og úrskurðarnefnd KSÍ dæmi hann í nokkurra leikja bann fyrir hegðun sína í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í gær.

Elfar Freyr tæklaði Víkinginn Ágúst Eðvald Hlynsson á 82. mínútu leiks Breiðabliks og Víkings í gærkvöld og fékk fyrir það rautt spjald. Elfar var ekki sáttur, tók rauða spjaldið af Þorvaldi Árnasyni dómara og henti því í grasið áður en hann gekk af velli.

Beint rautt spjald þýðir að Elfar Freyr fer í bann í næsta leik.

Allar brottvísanir og atvik sem þessi sem gerast í kringum þær fara inn á borð aga- og úrskurðarnefndar. Nefndin kemur saman á þriðjudögum og mun þetta mál verða tekið fyrir næsta þriðjudag.

Fordæmi eru fyrir því að dæma menn í lengra bann fyrir athæfi sem þetta. Kassim Doumbia, þáverandi leikmaður FH, fékk tveggja leikja bann fyrir samskonar hegðun í leik Breiðabliks og FH í Pepsideildinni fyrir fimm árum síðan.

Aga- og úrskurðarnefnd hefur svigrúm til þess að dæma Elfar í allt að sex leikja bann.

Samkvæmt reglum KSÍ gilda spjöld og refsingar vegna þeirra bara í viðeigandi keppni. Því mun leikbann Elfars, hversu langt sem það verður, aðeins gilda í bikarkeppninni. Pepsi Max deildar lið sem fara alla leið í úrslitaleikinn spila 5 bikarleiki á sumri, miðað við að fyrirkomulag síðustu ára þar sem þau koma inn í 32-liða úrslitum haldist, svo ef aga- og úrskurðarnefnd dæmir tvo eða þrjá auka leiki ofan á hefðbundna eins leiks bannið fyrir rauða spjaldið þá gæti farið svo að Elfar fái ekki að spila bikarleik sumarið 2020. 

Þar sem Blikar töpuðu undanúrslitaleiknum í gær er þátttöku þeirra í bikarkeppninni á þessu ári lokið. Refsingin færist því yfir á næsta ár og mun Elfar byrja næsta bikartímabil í banni.

Elfar er hins vegar ekki löglegur í næsta leik Breiðabliks í Pepsi Max deildinni heldur, hann var á síðasta fundi aga- og úrskurðarnefndar dæmdur í eins leiks bann fyrir uppsöfnuð gul spjöld. Hann gæti komið aftur inn í liðið þegar Blikar sækja FH heim þann 25. ágúst.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.