Íslenski boltinn

Elfar á í hættu að missa af bikarsumrinu 2020

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elfar Freyr Helgason í leik með Blikum
Elfar Freyr Helgason í leik með Blikum vísir/bára
Elfar Freyr Helgason gæti misst af allri bikarkeppninni á næsta ári fari svo að aga- og úrskurðarnefnd KSÍ dæmi hann í nokkurra leikja bann fyrir hegðun sína í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í gær.Elfar Freyr tæklaði Víkinginn Ágúst Eðvald Hlynsson á 82. mínútu leiks Breiðabliks og Víkings í gærkvöld og fékk fyrir það rautt spjald. Elfar var ekki sáttur, tók rauða spjaldið af Þorvaldi Árnasyni dómara og henti því í grasið áður en hann gekk af velli.Beint rautt spjald þýðir að Elfar Freyr fer í bann í næsta leik.

Allar brottvísanir og atvik sem þessi sem gerast í kringum þær fara inn á borð aga- og úrskurðarnefndar. Nefndin kemur saman á þriðjudögum og mun þetta mál verða tekið fyrir næsta þriðjudag.Fordæmi eru fyrir því að dæma menn í lengra bann fyrir athæfi sem þetta. Kassim Doumbia, þáverandi leikmaður FH, fékk tveggja leikja bann fyrir samskonar hegðun í leik Breiðabliks og FH í Pepsideildinni fyrir fimm árum síðan.Aga- og úrskurðarnefnd hefur svigrúm til þess að dæma Elfar í allt að sex leikja bann.Samkvæmt reglum KSÍ gilda spjöld og refsingar vegna þeirra bara í viðeigandi keppni. Því mun leikbann Elfars, hversu langt sem það verður, aðeins gilda í bikarkeppninni. Pepsi Max deildar lið sem fara alla leið í úrslitaleikinn spila 5 bikarleiki á sumri, miðað við að fyrirkomulag síðustu ára þar sem þau koma inn í 32-liða úrslitum haldist, svo ef aga- og úrskurðarnefnd dæmir tvo eða þrjá auka leiki ofan á hefðbundna eins leiks bannið fyrir rauða spjaldið þá gæti farið svo að Elfar fái ekki að spila bikarleik sumarið 2020. Þar sem Blikar töpuðu undanúrslitaleiknum í gær er þátttöku þeirra í bikarkeppninni á þessu ári lokið. Refsingin færist því yfir á næsta ár og mun Elfar byrja næsta bikartímabil í banni.Elfar er hins vegar ekki löglegur í næsta leik Breiðabliks í Pepsi Max deildinni heldur, hann var á síðasta fundi aga- og úrskurðarnefndar dæmdur í eins leiks bann fyrir uppsöfnuð gul spjöld. Hann gæti komið aftur inn í liðið þegar Blikar sækja FH heim þann 25. ágúst.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.