Íslenski boltinn

Arnar: Tók 45 mínútur að fatta að við vorum að spila við toppliðið

Skúli Arnarson skrifar
Strákarnir hans Arnars eru enn í fallbaráttu.
Strákarnir hans Arnars eru enn í fallbaráttu. vísir/daníel

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var svekktur að fá ekkert út úr leiknum gegn KR í kvöld. Honum fannst bikarleikurinn í síðustu viku hafa setið í mönnum.

„Þetta er bara svekkjandi. Okkur vantaði 5% á öllum sviðum í fyrri hálfleik. KR voru aggresívari og sterkari heilt yfir. Mér fannst samt óþarfi að fá á okkur þetta mark í lok fyrri hálfleiks. Í seinni hálfleik vorum við betri með boltann en náðum ekki að skapa okkur neitt af viti. Mér fannst vera smá bikarþynnka í báðum liðum og það vantaði gæðin sem maður sá hjá báðum liðum í bikarleikjunum.“

KR skoruðu á 43. mínútu og voru eftir það gífurlega þéttir. Arnari fannst vantar meiri klókindi í sína menn.

„KR er með gífurlegt „know how“ í sínu liði og vita hvernig á að vinna leiki. Um leið og þeir náðu forskoti þá var erfitt að brjóta þá á bak aftur. Við þurftum bara að vera klókari á síðasta þriðjung.“

Athygli vakti að Arnar gerði tvær breytingar á sínu liði í hálfleik. 

„Halldór [Smári Sigurðarson] var meiddur en svo var þetta taktískt með Kwame [Quee]. Hann var ekkert búinn að vera neitt slakari en hver annar en ég vildi bara fá ferskari lappir inn. Það gekk svosem ágætlega, seinni hálfleikurinn var eign okkar án þess þó að við höfum náð að skapa neitt.“ 

Það brutust út gífurleg fagnaðarlæti þegar Víkingur tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum í bikarnum í síðustu viku. Arnar segir að það hafi verið miklar tilfinningar í þeim leik.

„Bikarleikurinn í vikunni var mjög tilfinningaríkur leikur og tók á bæði líkamlega og andlega. Það tók 45 mínútur í dag að fatta það að við vorum að spila við toppliðið í deildinni.“

Víkingur mætir Grindavík í næsta leik sem er gífurlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið.

„Við þurfum að ná upp ákefðinni sem við vorum með í leiknum við Blika í bikarnum til þess að vinna þessa leiki.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.