Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - HK 0-1 | Aftur tapaði ÍBV Þjóðhátíðarleiknum

Einar Kárason skrifar
Ásgeir Börkur hefur verið öflugur í síðustu leikjum með HK.
Ásgeir Börkur hefur verið öflugur í síðustu leikjum með HK. vísir/bára
Þjóðhátíð í Eyjum og hoppandi fjör þegar ÍBV tók á móti HK í dag. Frábært veður og allt eftir uppskrift. Leikurinn fór rólega af stað en fyrsta tækifærið kom á 10. mínútu þegar Gary Martin átti marktilraun en Ásgeir Börkur Ásgeirsson var mættur á svæðið til að hoppa fyrir skotið.

Leikurinn í dag var leikur miðjumoðsmanna en þeir höfðu í nægu að snúast. Það var ekki fyrr en eftir rúmlega hálftíma leik að Bjarni Gunnarsson, framherji HK, átti skot framhjá áður en Ásgeir Marteinsson reyndi á Halldór Pál Geirsson í marki ÍBV en Halldór vandanum vaxinn og sló boltann burt. Víðir Þorvarðarson, fyrirliði ÍBV, átti svo fína tilraun úr teig en Arnar Freyr Ólafsson varði. Lítið gerðist eftir þetta fram að hálfleik og liðin gengu til herbergja í stöðunni 0-0.

Það var svo strax í upphafi síðari hálfleiks að eina mark leiksins leit dagsins ljós. Eftir innan við 2 mínútur kom hár bolti í átt að teig Eyjamanna. Sigurður Arnar Magnússon ætlaði sér að skalla boltann aftur á Halldór en Halldór mættur út í teig og boltinn því laus. Fyrstur á svæðið var Bjarni Gunnarsson, fyrrum leikmaður ÍBV, og kom boltanum í netið. Staðana 0-1 fyrir gestina.

Eftir markið tók við svipaður leikur og í fyrri hálfleiknum en fá færi sköpuðust og lítið að frétta fyrir utan einstaka hornspyrnur og brot. Eitt og eitt skot utan af velli en lítið annað.

Þegar rétt rúmlega 10 mínútur voru eftir átti Birnir Snær Ingason, nýjasta viðbótin í lið HK, tilraun úr teig eftir undirbúning frá Ásgeiri Berki, en Halldór Páll varði í slá og yfir. Birnir átti svo aðra tilraun stuttu síðar en skot hans fyri utan teig fór naumlega framhjá.

Þrátt fyrir djöfulgang og læti náðu Eyjamenn ekki að skapa sér nein alvöru færi og því enduðu leikar með 0-1 sigri HK og stigin öll í Kópavoginn.

Víðir Þorvarðarson.vísir/daníel
Víðir: Loksins komnir almennilegir menn í stjórn

„Þetta er orðið erfitt hjá okkur,“ sagði Víðir Þorvarðarson, fyrirliði ÍBV, eftir tapið gegn HK í dag.

„Við spiluðum vel í dag en en ein helvítis mistökin kosta okkur. Þegar maður er kominn í þessa stöðu þá margfaldast allt mótlæti í hausnum á manni. Þetta er ógeðslega erfitt ef ég á að segja eins og er. Menn lögðu sig heldur betur fram og hentu líkama fyrir málstaðinn en því miður töðum við. Enn eitt skiptið.”

Eina mark leiksins kom strax í byrjun síðari hálfleiks án þess að hvorugt liðið hafi skapað sér alvöru marktækifæri.

„Þess vegna eru þetta ógeðslega mikið vonbrigði. Það hefur verið helvítis ströggl að halda hreinu í sumar og það virtist vera að ganga ágætlega í dag en við verðum bara að byggja á þessu.”

„Credit til HK. Þeir eru vel drillaðir og skipulagðir. Við reyndum að komast afturfyrir þá sem gekk svona ágætlega til að byrja með. Þegar þeir skora þá henda þeir sér algjörlega allir aftur og halda því sem er komið þannig að það var erfitt að finna færi í dag. Því miður.”

Gengi liðsins í sumar hefur ekki verið gott og liðið er svo gott sem fallið niður í Inkasso deildina. Félagið seldi Sindra Snæ Magnússon til ÍA í glugganum og svo virðist sem liðið og stjórn félagssins sé að undirbúa sig fyrir komandi tíð.

„Ég held áfram að berjast í Pepsi Max deildinni. Ég er í Pepsi Max deildinni. Það eru aðrir menn að taka ákvarðanir sem líta út fyrir að við séum að henda árum í bát og sumir virðast vera fallnir.“

„ÍBV fellur ekki á einum manni. Það eru síðustu 9 mánuðir sem hafa bara verið í lausu lofti og loksins eru komnir almennilegir menn í stjórn og tilbúnir að taka erfiðar ákvarðanir. Þó ég sé ósammála þeim ákvörðunum þá eru þeir allavega til staðar til að taka þær,” sagði Víðir að lokum.

HK hefur fengið 13 stig af 15 mögulegum í síðustu fimm leikjum sínum.vísir/bára
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var sáttur í leikslok.

„Þetta var frekar jafn leikur. Hvorugt liðið skapaði mikið af færum. Við vorum kannski líklegir undir lok fyrri hálfleiks en við skouðum mark upp úr þeirra mistökum. Við eiginlega héngum á því. Við hefðum getað spilað betur.“

„Það var hart barist. Við vissum það. Við erum að berjast fyrir lífi okkar í deildinni og ÍBV er ennþá að reyna það. Mikil af návígjum, löngum boltum, tæklingum og lausum boltum. Við unnum einn lausan bolta á réttu momenti og skoruðum markið. Kannski var leikurinn ekkert sérstaklega fallegur en við tökum stigin þrjú.”

HK hafa verið á fínni siglingu undanfarnar vikur eftir takmarkaða byrjun.

„Stigasöfnunin hefur verið góð. Þetta var mikiðvægur sigur. Mikilvægt að koma hingað á erfiðan útivöll, með allt sem er að gerast í kring. Þetta var örugglega erfiðasti útileikurinn okkar á tímabilinu.“

„Hann þarf að berjast fyrir sæti sínu í liðinu,” sagði Brynjar Björn um Birnir Snæ Ingason sem kom til liðsins frá Val í vikunni.

„Hann er möguleiki fyrir okkur. Við misstum tvo kantmenn út til Bandaríkjanna og fáum einn mann í staðinn. Mjög góðan leikmann, eins og við sáum í dag. Hann getur valdið urlsa með boltann og er öflugur spilari.“

ÍBV hefur tapað öllum leikjunum eftir að Jeffs tók við liðinu.vísir/daníel
Jeffs: Þreytandi að mæta í viðtal og segja alltaf sama hlutinn

Ian David Jeffs var röskur inn í klefa eftir leik og lét blaðamenn sitja á hakanum. Einhverjir héldu að hann hefði ekki viljað koma í viðtöl en svo var ekki.

„Ég vildi bara klára þetta strax. Ég vildi taka 60 sekúndur með leikmönnum og svo mæta í viðtal. Líka til að róa mig aðeins niður. Mér fannst þetta vera rosalegur baráttu leikur. Við lögðum leikinn vel upp. Mér fannst þeir aldrei spila í gegnum okkur. Okkar skipulag var frábært. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Þetta er bara eitt fucking skítamark. Einstaklingsmistök. Það að menn geti ekki talað saman. Þetta er þreytandi.

„Að mæta í viðtal og segja alltaf sama hlutinn. Hvað á ég að segja? Þetta átti að vera jafntefli. Við vorum kannski aðeins sterkari þessar 90 mínútur. Við skorum ekki mark. Þeir skora mark. Við töpum 1-0. Það er bara þannig. Það er bara þannig. Ein mistök. Mark. Við náum ekki að ógna nógu mikið sóknarlega í seinni hálfleik. Fyrirgjafir lausar og vorum ekki að klára hlaupin. Það vantar herslumuninn upp á það.“

Þrátt fyrir allt var Ian sáttur við sína menn og framlag þeirra.

„Menn voru að leggja sig fram og gefa sig í þetta. Þetta er bara sama sagan. Hvern einasta leik gerum við eitthvað svona fáránlegt og fáum mark í andlitið.“

Mikið hefur verið rætt um framtíð Eyjamanna. Staðan í deild er svört og liðið að öllum líkindum á leið niður um deild. Hvernig er framhaldið?

„Við höfum ekkert rætt þetta. Þetta er vonbrigðatímabil og við Andri [Ólafsson] vorum ráðnir. Fyrsta markmið var bara að reyna að bjarga þessu og halda sæti í Pepsi Max deildinni. Núna er þetta bara þannig að tölfræðilega eigum við möguleika en við verðum að vera hreinskilnir með það að ef þetta heldur svona áfram erum við á leið í Inkasso. Menn verða að halda einbeitingu í 90 mínútur. Við þurfum að setjast niður í næstu viku og ræða hvernig planið er. Fyrir mig er það bara að horfa á næsta leik og undirbúa hann. Byggja ofan á það sem hefur verið gott. Á móti Grindavík og núna á móti HK og laga það sem vantar til að ná þremur stigum,“ sagði Ian Jeffs að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira