Erlent

Níu látnir eftir aðra skotárásina á 13 tímum

Andri Eysteinsson skrifar
Nokkrum tímum áður hafði árásarmaður myrt 20 í El Paso í Texas.
Nokkrum tímum áður hafði árásarmaður myrt 20 í El Paso í Texas. AP/John Mincillo
Níu eru látnir og 16 eru særðir eftir skotárás í borginni Dayton í Ohio-ríki í nótt. Lögreglan í Dayton segir að auk hinna níu fórnarlamba sé árásarmaðurinn látinn. CNN greinir frá.

Lögregla var kölluð á vettvang árásarinnar sem fór fram skömmu eftir klukkan 01:00 á staðartíma í Dayton. Árásarmaðurinn, sem ekki hefur verið borið kennsl á, hafði þá skotið á vegfarendur sem gengu um vinsælt svæði í miðbæ borgarinnar. Árásarmaðurinn er sagður hafa verið vopnaður riffli af einhverju tagi en hann var skotinn til bana af lögreglumönnum sem kallaðir voru á vettvang.

Lögregla telur að árásarmaðurinn hafi verið einn á ferð og telja því að yfirvofandi ógn sé engin. Þá hefur lögregla ekki komist að ástæðu skotárásarinnar.

Aðstoðarvarðstjóri lögreglunnar í Dayton, Matt Carper, sagði á blaðamannafundi eftir árásina að stuttan tíma hafi tekið að ráða niðurlögum árásarmannsins. „Eins slæmt og þetta var, hefði þetta geta orðið töluvert verra,“ sagði Carper.

Um er að ræða aðra skotárásina í Bandaríkjunum á einum sólarhring en í gær voru tuttugu myrtir í Walmart verslun í El Paso í Texas af hinum 21 árs Patrick Crusius. Crusius hafði þá birt stefnuyfirlýsingu á Internetinu þar sem fram kom að hann hefði óbeit á spænskættuðum íbúum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×