Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Víkingur R. 2-1 | Garðbæingar upp í 3. sætið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
vísir/bára
Eftir markalausan fyrri hálfleik á Samsung vellinum í Garðabænum skoruðu heimamenn tvívegis með stuttu millibili í upphafi síðari hálfleiks og dugði það til sigurs þó Víkingar hafi náð að pota inn einu undir lok leiks

Jósef Kristinn Jósefsson og Hilmar Árni Halldórsson gerðu mörk Stjörnunnar á meðan Óttar Magnús Karlsson skoraði fyrir Víking.

Sigurinn þýðir að Stjarnan er komin upp í 3. sæti deildarinnar með 24 stig á meðan Víkingar sitja í 10. sæti með 16 stig líkt og KA en betri markatölu.

Rólegur fyrri hálfleikur

Það var fátt um fína drætti í fyrri hálfleik en þrátt fyrir mjög sóknarsinnað lið þá áttu Víkingar í mesta basli með að skapa sér færi. Það voru helst Guðmundur Andri Tryggvason eða Óttar Magnús sem sköpuðu einhvern usla en gestirnir vildu í tvígang fá vítaspyrnu en höfðu þó lítið til síns máls.

Heimamenn í Stjörnunni voru mikið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og voru oft hársbreidd frá því að koma sér í almennileg marktækifæri. Þá átti Hilmar Árni haug af spyrnum úr föstum leikatriðum sem rötuðu á kollinn á Baldri Sigurðssyni en Smalanum tókst þó ekki að ógna marki Þórðs af neinu viti.

Besta færi Stjörnunanr í fyrri hálfleik fékk téður Baldur þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Hilmar Árni átti þá spyrnu frá vinstri sem sveif inn að marki, boltinn var skallaður upp í loft áður en hann datt fyrir Baldur inn í markteig sem var að falla aftur á bak eftir að hafa verið í barningi í teignum. Skot Baldurs fór því, eðlilega miðað við mann að detta, beint upp í loftið og rétt yfir mark gestanna.

Nær komst hvorugt lið því að skora í fyrri hálfleik og staðan því markalaus þegar Jóhann Ingi Jónsson flautaði til hálfleiks.

Stjarnan byrjaði síðari hálfleik af krafti

Stjarnan byrjaði síðari hálfleik af krafti og eftir aðeins tíu mínútna leik höfðu þeir skorað tvívegis. Þrjár mínútur voru á milli markanna.

Fyrra markið skoraði vinstri bakvörðurinn Jósef Kristinn Jósefsson, með hægri fæti, eftir frábæran sprett Heiðars Ægissonar upp hægri væng Stjörnunnar. Hann lék knettinum upp að endalínu og átti fyrirgjöf sem fór fram hjá Kára Árnasyni sem reyndi að teygja sig í knöttinn og á Jósef sem kom keyrandi inn af fjærstönginni. Honum brást ekki bogalistin og staðan orðin 1-0 heimamönnum í vil.

Skömmu síðar var mikill atgangur í teig Víkinga og átti Heiðar skot að marki sem fór í hendina á Davíði Erni Atlasyni og vítaspyrna umsvifalaust dæmd. Hilmar Árni Halldórsson, sem klúðraði víti í síðasta Evrópuleik Stjörnunnar, fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Staðan því orðin 2-0 þegar 55 mínútur voru á klukkunni.

Eftir þetta lifnaði aðeins yfir gestunum og það tók þá rétt rúmar tíu mínútur að minnka muninn. Það gerði Óttar Magnús í sínum fyrsta leik fyrir félagið eftir að hann gekk til liðs við Víking frá Mjällby í Svíþjóð.

Dofri Snorrason tók aukaspyrnu við miðjulínu inn á teig Stjörnunnar þar sem Kári Árnason skallaði knöttinn fyrir fætur Óttars sem hamraði honum nánast í gegnum Harald Björnsson í marki Stjörnunnar og þaðan í netið. Staðan orðin 2-1 og 25 mínútur eftir af leiknum.

Nær komust gestirnir ekki en bæði lið fengu fín upphlaup það sem eftir lifði leiks. Stjarnan til að tryggja sigurinn og Víkingar til að jafna metin en hvorugu liði tókst þó að skapa sér opin marktækifæri.

Af hverju vann Stjarnan?

Voru einfaldlega mikið sterkari aðilinn í Garðabænum framan af leik. Dugði það til sigurs í kvöld en þeir voru þá nálægt því að missa leikinn niður í enn eitt jafnteflið.

Hverjir stóðu upp úr?

Alex Þór Hauksson var eins og kóngur í ríki sínu á miðjunni hjá Stjörnunni og þá kom Heiðar Ægisson að báðum mörkum liðsins en hann lék í stöðu hægri kantmanns í dag. Daníel Laxdal og Haraldur Björnsson voru einnig flottir þegar á reyndi undir lok leiks.

Guðmundur Andri byrjaði vel hjá Víkingum en það fjaraði svo undan. Hann lenti í nokkrum harkalegum tæklingum og er spurning hvort það hafi haft áhrif á hann í dag. Þá var Óttar Magnús flottur en hann á eftir að komast í betra leikform.

Hvað gekk illa?

Almennt spil Víkinga var dapurt fyrstu 60 mínúturnar en Arnar Gunnlaugsson fór vel yfir það í viðtali eftir leik. Þá gekk Stjörnunni illa að skapa sér opin marktækifæri þrátt fyrir mikla yfirburði úti á velli.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer til Akureyrar 11. ágúst og mætir þar KA sem er í fallsæti. Þann sama dag fá Víkingar heimsókn frá Eyjamönnum sem eru einnig í fallsæti og í raun svo gott sem fallnir.

Heiðar Ægisson.vísir/daníel
Heiðar: Ætlum að enda í topp þremur

„Góð þrjú stig, loksins vinnum við. Höfum verið að gera full mikið af jafnteflum í undanförnum leikjum svo það var gott að fá loksins þrjú punkta,“ sagði alsæll Heiðar Ægisson að loknum 2-1 sigri Stjörnunnar á Víkingum í Pepsi Max deild karla í kvöld.

 

Það hefur verið mikið álag á Stjörnuliðinu undanfarnar vikur en liðið hefur leikið fjóra Evrópuleiki á á skömmum tíma sem og að vera spila í Pepsi Max deildinni. Heiðar viðurkenndi að það álag hefði sést á liðinu þegar líða fór á leikinn í kvöld.

„Það var alveg farið að taka sinn toll að spila tvo leiki í viku en það er alltaf gaman í Evrópu og við stefnum á það aftur, að komast í Evrópu á næsta ári þar að segja.“

 

Sigur kvöldsins þýðir að Stjarnan situr nú í 3. sæti deildarinnar með 24 stig þegar 15 umferðir eru búnar. Deildin er einkar jöfn en Breiðablik er í 2. sæti með 26 stig og Valur í því 4. með 23 stig. Þá eru ÍA og FH bæði með 22 stig. Heiðar er samt ekkert að fara í felur með markmið Stjörnunnar.

 

„Við ætlum að lenda í topp þremur efstu sætum deildarinnar. Það er markmiðið og þá komumst við í Evrópu. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Heiðar að lokum.

 

Heiðar átti góðan leik en hann kom að báðum mörkum Stjörnunnar í kvöld. Hann lék á hægri vængnum í dag en hann hefur aðallega leikið sem hægri bakvörður eða miðjumaður í gegnum tíðina. Eftir frammistöðuna í dag verður erfitt fyrir Rúnar Pál, þjálfara Stjörnunnar, að færa Heiðar aftur niður í bakvörð.

Arnar Gunnlaugsson.vísir/bára
Arnar: Þú ert að fá greitt og þarft að hugsa um klúbbinn þinn

„Þau eru bara ömurleg, það er ógeðslegt að tapa fótboltaleikjum en við vorum ekki mættir fyrstu 60 mínúturnar. Sumir enn í Verslunarmannahelgargír. Einföldustu sendingar og allt sem við stöndum fyrir var ekki að gerast í kvöld, sérstaklega fyrsta klukkutímann,“ sagði svekktur Arnar Gunnlaugsson að loknu 2-1 tapi Víkings á Samsung vellinum í Garðabænum í Pepsi Max deild karla í kvöld.

 

Arnar hélt áfram.

„Vorum alltaf ógnandi en í hálfleik þurftum við ekki mikið til að vinna leikinn en við gáfum þeim tvö einföld  mörk í byrjun seinni hálfleiks en eftir það áttum við bara leikinn með húð og hári. Það var bara ekki nóg því það var orðið of seint, við vorum bara lélegir í kvöld.

 

„Þú ert að fá greitt og þarft að hugsa um klúbbinn þinn.“

Arnar játti því að mögulega var þjálfarateymi Víkinga of gott við leikmenn yfir Verslunarmannahelgina.

 

„Mögulega. Við erum að fara í erfitt prógram þar sem við spilum 4-5 leiki á tveimur og hálfri viku þannig að við gáfum þeim tvo daga frí en hver og einn verður að hugsa um sjálfan sig. Þetta er ekkert flókið. Þú ert hálf-atvinnumaður, þú ert að fá greitt og þarft að hugsa um klúbbinn þinn svo auðvitað treystir maður leikmönnum til að standa sig og standa sína plik en menn voru bara sofandi fyrstu 60 mínúturnar. Þetta voru svo einfaldar sendingar, ég og þú gætum gert þessar sendingar í strigaskónum okkar. Það var engin ákefð og án þessara hluta vinnuru ekki fótboltaleik gegn liði eins og Stjörnunni.“

 

Að lokum var Arnar spurður út í Óttar Magnús Karlsson og innkomu hans í Víkings liðið en Óttar Magnús skoraði mark Víkinga í Garðabænum í kvöld.

 

„Við höfum fengið marga af þessum ungu strákum til baka, misbugaðir á líkama og sál. Þetta eru náttúrulega vonir, draumar og væntingar sem hafa farið aðeins forgörðum í atvinnumennskunni og það er okkar hlutverk að byggja þá upp. Það tók Guðmund Andra [Tryggvason] nokkra leiki, Atla Hrafn [Andrason] nokkra leiki, Júlla [Júlíus Magnússon] nokkra leiki og það sama mun eiga við um Óttar en við sjáum strax gæðin.“

 

„Þessir strákar fóru í atvinnumennsku út af ástæðu, þeir eru betri en þeir leikmenn sem eru hér á Íslandi. Ekkert flóknara en það. Þannig þeir vita að þeir eru betri en maður veit aldrei hversu langan tíma það tekur að ná fyrri styrk aftur en vonandi fyrir okkur er það fyrr heldur en seinna,“ sagði Arnar að lokum.

Rúnar var ánægður í kvöld.vísir/bára
Rúnar Páll: Viljum hafa 100% menn í hópnum

„Þrjú stig er mjög kærkomið. Að breyta þessum jafnteflis leikjum í sigurleiki er mikilvægt og þrjú stig eru mikilvæg upp á framhaldið að gera,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigurinn í kvöld.

 

„Þetta er bara einn stór pakki, við þurfum að hugsa um næsta leik og það er ekkert lið sem má misstíga sig ef það ætlar að gera eitthvað í þessu móti. Við vorum norður á sunnudaginn og þurfum að eiga frábæran leik ef við ætlum að fá eitthvað úr honum,“ sagði Rúnar aðspurður um framhaldið.

 

Að lokum var Rúnar spurður um stöðuna á Guðjóni Baldvinssyni framherja liðsins sem hefur verið að glíma við meiðsli og var ekki í hóp í kvöld.

„Það kom smá bakslag í ökklan á honum og við ákváðum að hvíla hann í dag. Hann þarf bara að æfa nógu vel þar sem hann er ekki alveg 100% og það er tilgangslaust að hafa leikmann í hóp sem er ekki 100% heill heilsu. Við erum með það stóran hóp og við viljum hafa 100% menn í hópnum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira