Íslenski boltinn

KR með mestu yfirburðina í heilan áratug

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson hefur verið frábær með KR í sumar.
Óskar Örn Hauksson hefur verið frábær með KR í sumar. vísir/bára
KR-ingar eru með tíu stiga forystu á toppi Pepsi Max deild karla eftir mjög hagstæð úrslit fyrir Vesturbæinga í fjórtándu umferðinni sem lauk í gær.

KR-ingar unnu sannfærandi 4-1 sigur á Fylki á útivelli í sínum leik og hafa þar með unnið níu af síðustu tíu leikjum sínum í Pepsi Max deildinni.

Breiðablik og ÍA, liðin í næstu sætum, töpuðu hins vegar bæði sínum leikjum í þessari umferð og Stjarnan, liðið í 4. sæti, náði bara jafntefli. KR vann síðan Fylki sem var í fimmta sæti fyrir leik liðanna og FH, liðið í sjötta sæti, tapaði á móti KA fyrir norðan.

Liðin í 2. til 6. sæti eftir þrettándu umferð Pepsi Max deildar karla fengu því aðeins eitt stig samanlagt í fjórtándu umferðinni.

Þessi tíu stiga forysta KR-inga þýðir að þetta eru mestu yfirburðir toppliðs á þessum tímapunkti í heilan áratug eða síðan sumarið 2009 eða síðan að Heimir Guðjónsson gerði FH-liðið að Íslandsmeisturum í annað skiptið.

FH-ingar voru með tíu stiga forystu á KR í Pepsi deildinni sumarið 2009 þegar átta leikir voru eftir en enduðu samt bara á því að vinna deildina með þriggja stiga mun. FH tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í næst síðustu umferð en liðið var með fimm stiga forskot fyrir lokaumferðina.

Þetta er mikil breyting frá tímabilinu í fyrra þegar verðandi Íslandsmeistarar Valsmanna voru aðeins með eins stigs forskot á Stjörnuna þegar átta leikir voru eftir. Valsliðið fékk síðan fimm fleiri stig en Stjörnumenn í síðustu átta umferðunum.

Tvisvar í sögu tólf liða deildar hafa lið verið jöfn að stigum eftir fjórtándu umferð og í sex af tólf tímabilum hennar hefur munað tveimur stigum eða minna.

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á mesta forskoti liða eftir fjórtán umferðir í sögu tólf liða deildar.

Mesta forskot í 12 liða deild þegar átta umferðir eru eftir

10 stig - KR 2019 (33 - Breiðablik 23)

10 stig - FH 2009 (37 - KR 27)

5 stig - Valur 2017 (30 - Stjarnan 25)

5 stig - FH 2012 (32 - KR 27)

5 stig - KR 2011 (34 - ÍBV 29)

3 stig - FH 2015 (30 - KR 27)

Forskot toppliðsins í tólf liða deild (2008-2019) þegar átta leikir eru eftir:

0 stig - 2014, 2010

1 stig - 2018, 2016, 2008

2 stig - 2013*

3 stig - 2015

4 stig - Aldrei

5 stig - 2017, 2011*, 2012

6 stig - Aldrei

7 stig - Aldrei

8 stig - Aldrei

9 stig - Aldrei

10 stig - 2019, 2009

*Lið í 1. eða 2. sæti átti leik inni sem var tekinn með




Fleiri fréttir

Sjá meira


×