Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: KR-ingar töluvert betri en flest önnur lið á landinu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson
Jóhannes Karl Guðjónsson vísir/daníel þór
„Leikurinn þróaðist þannig að ég var virkilega ósáttur að komast ekki í 2-0. Við fengum tækifæri til þess og mér fannst við vera með leikinn í góðri stöðu. Við fáum líka færi í byrjun seinni hálfleiks til að komast í 2-0 en í staðinn nær KA að jafna og fá aukinn kraft við það. Við urðum of passífir og þegar upp er staðið er jafntefli sanngjörn niðurstaða.“

Þetta sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, eftir 1-1 jafntefli við KA á Akureyri í dag.

Almarr Ormarsson skoraði jöfnunarmark KA og kom það sem þruma úr heiðskíru lofti. Jóhannes Karl var ósáttur með varnarleikinn í aðdraganda marksins.

„Við viljum vera þéttir á þessu svæði. Þetta var í hjarta varnarinnar og í gegnum hjartað á liðinu. Það var allt of auðveld og greið leið í gegnum liðið okkar. Auðvelt skot á markið en þetta er auðvitað vel gert hjá Almarri. Alls ekki nógu öflug varnarvinna hjá okkur og það var virkilega svekkjandi,“ segir Jóhannes Karl.

,,Óþolandi yfirburðir KR"Þetta var þriðja jafntefli Skagamanna í síðustu fjórum leikjum en það pirrar þjálfara þeirra ekki ýkja mikið.

Nei í raun og veru ekki. Þetta er mjög erfið deild. Við ætlum okkur alltaf að vinna leiki en við verðum líka að virða það að við séum að ná í þessi stig. Þegar við erum ekki að spila nægilega vel verðum við stundum að sætta okkur við jafntefli. Ég hef trú á að við getum bætt spilamennskuna og þá verða jafnteflin að sigrum,“ segir Jóhannes Karl.

Skagamenn í þriðja sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði KR. Er möguleiki að veita þeim baráttu um Íslandsmeistaratitilinn?

„Eins óþolandi og það er þá eru KR-ingarnir bara með það mikla yfirburði í deildinni. Þeir eru með svakalega öflugan mannskap og eru að bæta enn meira í. Þeir virðast vera komnir langleiðina með að sigla þessu heim. KR-ingarnir eru töluvert betri en flest önnur lið í landinu en við viljum vera eins nálægt þeim og mögulegt er,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×