Erlent

800 stjórnar­and­stæðingar hand­teknir í Moskvu

Eiður Þór Árnason skrifar
Talið er að þetta sé ein stærsta aðgerð stjórnvalda í langan tíma sem beinst hefur gegn stjórnarandstöðunni þar í landi.
Talið er að þetta sé ein stærsta aðgerð stjórnvalda í langan tíma sem beinst hefur gegn stjórnarandstöðunni þar í landi. Vísir/AP
Lögreglan í Moskvu hefur handtekið yfir 800 manns í dag sem mótmælt hafa framgöngu stjórnvalda þar í landi. Handtökurnar áttu sér stað fyrir og eftir mótmæli fyrir utan ráðhús borgarinnar. Þar söfnuðust mótmælendur saman til að krefjast þess að frambjóðendur stjórnarandstöðunnar fái að bjóða sig fram í stjórn borgarinnar.

Kosið verður um öll sætin í borgarstjórn Moskvu þann áttunda september til fimm ára. Borgin er nú undir stjórn flokksins Sameinað Rússland, sem er hliðhollur rússneskum stjórnvöldum í Kremlin.

Frambjóðendur sem ekki eru studdir af stjórnmálaflokki þurfa að safna um fimm þúsund undirskriftum svo framboð þeirra teljist gilt. Fram að þessu hafa nær tvö hundruð frambjóðendur skráð framboð sín og eru flestir þeirra stuðningsfólk Vladimir Putin Rússlandsforseta.

Kjörstjórn í Moskvu hefur neitað að skrá nokkra frambjóðendur stjórnarandstöðunnar með þeim rökstuðningi að þeir hafi ekki náð að safna nógu mörgum gildum undirskriftum í tæka tíð. Frambjóðendurnir halda því þó fram að þeir hafi fullnægt skilyrðunum og að undirskriftir sínar séu ósviknar.

Sú ákvörðun kjörstjórnar að hindra framboð nokkurra stjórnarandstöðuframbjóðenda hefur leitt til fleiri mótmæla í þessum mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×