Erlent

Þrír látnir í skotárás á matarhátíð í Kaliforníu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Gilroy í gærkvöldi.
Frá vettvangi í Gilroy í gærkvöldi. Vísir/vilhelm
Þrír eru látnir og fimmtán særðir eftir skotárás á matarhátíð í borginni Gilroy í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum í gær. Árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglu skömmu eftir að hann hóf skothríð. Lögregla rannsakar nú hvort byssumaðurinn hafi átt sér vitorðsmann sem hafi flúið vettvang.

Hvítlaukshátíðinni í Gilroy var við það að ljúka í gærkvöldi, eða um hálf sex að staðartíma, þegar árásarmaðurinn lét til skarar skríða. Vitni segja manninn hafa verið hvítan, á fertugsaldri og notað riffil við verknaðinn.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Michael Paz, hattasölumanni á hátíðinni, að árásarmaðurinn hafi jafnframt verið íklæddur skotheldu vesti og því greinilega mætt í þeim tilgangi að skjóta á fólk. Í umfjöllun CNN um árásina frá því í gær má sjá myndbönd af vettvangi þar sem hátíðargestir flýja undan árásarmanninum. Umfjöllunina má sjá í spilaranum hér að neðan.

Scot Smithee, lögreglustjóri í Gilroy, sagði á blaðamannafundi í gær að árásarmaðurinn hafi komist inn á hátíðarsvæðið með því að klippa gat á girðingu. Lögreglumenn voru þegar á vettvangi vegna hátíðarinnar og brugðust þeir skjótt við þegar árásarmaðurinn hóf skothríð.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um árásina á Twitter í gærkvöldi. Þar biðlaði hann til hátíðargesta að „fara varlega“.

Gilroy er um fimmtíu kílómetra suður af borginni San Jose. Hvítlaukshátíðin hefur verið haldin árlega í bænum síðan árið 1979. Skotárásin í borginni í gærkvöldi er sú 246. í Bandaríkjunum það sem af er ári. Tölurnar ná yfir þær árásir þar sem fjórir eða fleiri látast eða særast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×