Enski boltinn

Aston Villa búið að eyða nítján milljörðum meira en Liverpool í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hjá Liverpool.
Mohamed Salah hjá Liverpool. Getty/David S. Bustamante
Aston Villa er komið aftur upp í ensku úrvalsdeildina eftir þriggja ára fjarveru. Félagið ætlar ekki niður aftur og hefur eytt miklum peningi í nýja leikmenn í sumarglugganum.

Bleacher Report Football tók saman stöðuna á eyðslu liðanna í ensku úrvalsdeildinni nú þegar aðeins tæpar tvær vikur eru eftir þagnað til félagsskiptaglugginn lokast.

Eftir 8. ágúst næstkomandi mega ensku úrvalsdeildarfélögin ekki kaupa sér nýja leikmenn fyrr en í byrjun janúar á næsta ári.

Mörg félaganna tuttugu hafa verið frekar róleg en það má búast við að líf færist í leikinn næstu daga þegar tímapressan er farin að reka félögin áfram.

Hér fyrir neðan má sjá stöðuna á eyðslunni eins og Bleacher Report Football reiknaði hana í gær.





Aston Villa hefur eytt langmestum peningi en Leicester City er í öðru sæti. Englandsmeistarar Manchester City og Tottenham eru ekki langt á eftir Leicester mönnum. West Ham er síðan á undan Manchester United sem er í sjötta sæti þessa lista.

Það er vanalegt að sjá Manchester City þarna svona ofarlega en Tottenham er loksins farið að eyða aftur í nýja leikmenn eftir að hafa sleppt úr tveimur félagsskiptagluggum í röð.

Íslendingaliðin Everton og Burnley eru bæði fyrir neðan miðju í eyðslu. Everton (Gylfi Þór Sigurðsson) er í 12. sæti og Burnley (Jóhann Berg Guðmundsson) er í 16. sætinu.

Það sem vekur kannski mesta athygli er að Evrópumeistarar Liverpool eru í nítjánda og næst neðsta sætið. Það er aðeins Norwich City, mótherji Liverpool í fyrstu umferðinni, sem hefur eytt minna.

Samkvæmt samantekt Bleacher Report Football hefur Liverpool aðeins eytt 1,36 milljónum dollara í nýja leikmenn en félagið keypti hollenska miðvörðinn Sepp van den Berg frá PEC Zwolle.   

Þetta þýðir jafnframt það að Aston Villa hefur eytt 155,8 milljónum dollara meira í nýja leikmenn í sumar en Liverpool en það eru meira en nítján milljarðar í íslenskum krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×