Enski boltinn

Lukaku ekki með Man Utd til Noregs

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lukaku var með Man Utd í Bandaríkjunum en fær ekki að fara með til Noregs.
Lukaku var með Man Utd í Bandaríkjunum en fær ekki að fara með til Noregs. vísir/getty
Enska knattspyrnustórveldið Manchester United er væntanlegt til norsku höfuðborgarinnar Osló síðar í dag þar sem liðið mun leika æfingaleik gegn norska úrvalsdeildarliðinu Kristiansund á Ullevaal leikvangnum á morgun.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Man Utd, tekur 26 leikmenn með sér til Noregs og eru allar skærustu stjörnur félagsins með í för að Romelu Lukaku og Alexis Sanchez undanskildum.

Eðlileg skýring er á fjarveru Sanchez þar sem hann er enn í fríi í kjölfar þátttöku sinnar á Copa America með Síle í sumar en fjarvera Lukaku rennir stoðum undir sögusagnir þess efnis að vera hans hjá Man Utd sé senn á enda. 

Lukaku hefur verið orðaður við Inter Milan undanfarnar vikur og hefur hann ekki tekið þátt í æfingaleikjum Man Utd í sumar.

Þetta er næstsíðasti æfingaleikur Man Utd áður en átökin í ensku úrvalsdeildinni hefjast en liðið mætir AC Milan um næstu helgi og hefur svo leik í deildinni sunnudaginn 11.ágúst næstkomandi gegn Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×