Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - Breiðablik 3-2 | Langþráður sigur Víkinga

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/daníel
Víkingur vann mikilvægan sigur á Breiðabliki í fimm marka leik í Víkinni í kvöld. Breiðablik hefur ekki unnið leik í Júlí mánuði og gerðu Blikar sér enn erfiðara fyrir í titil baráttunni með tapinu í kvöld. Leiknum lauk með 3-2 sigri heimamanna sem leiddu með einu marki í hálfleik, 1-0. 

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur. Þeir pressuðu vel frá fyrstu mínútu og uppskáru góð færi en tókst ekki að skora. Fyrsta markið kom eftir tæpan stundarfjórðung, þar voru heimamenn á ferð. 

Guðmundur Andri Tryggvason gerði vel þegar hann vann boltann eftir aukaspyrnu sinna manna. Guðmundur Andri kom boltanum á Nikolaj Hansen inní teig sem náði föstu skoti á markið. Skotið var beint á Gunnleif Gunnleifsson sem tókst ekki að verja að þessu sinni og heimenn voru óvænt komnir með forystu í leiknum.

Leikurinn varð jafnari eftir þetta, bæði lið náðu að skapa sér hálffæri en ekkert markvert gerðist fyrr en á loka mínútu fyrri hálfleiks, Víkingur fékk aukaspyrnu á hættulegum stað, rétt fyrir utan vítateig. Ágúst Hlynsson tók spyrnuna sem endaði á kollinum á Nikolaj Hansen en skallinn frá honum rétt framhjá.

Víkingar leiddu í hálfleik með einu marki, 1-0 enn mörkin áttu eftir að verða fleiri.

Breiðablik jafnaði eftir 10 mínútna leik í síðari hálfleik. Karl Friðleifur Gunnarsson, sem kom óvænt inní byrjunarlið Breiðabliks, gerði vel í jöfnunar markinu, hóf sóknina og endaði á að koma boltanum á Thomas Mikkelsen sem skoraði af öryggi.

Tvö mörk bættust við leikinn á næstu tveimur mínútum, Víkingar náðu aftur forystunni strax eftir miðjuna. Ágúst Hlynsson með sendingu fyrir markið þar sem boltinn datt fyrir Guðmund Andra Tryggvason sem skoraði. Á meðan Víkingar fögnuðu þutu gestirnir af stað í skyndisókn þar sem Höskuldur Gunnlaugsson sendi boltann yfir völlinn á Viktor Karl Einarsson, sem skallaði boltann yfir Þórð Ingason í marki Víkinga og staðan orðin jöfn að nýju, 2-2.

Þegar korter var eftir af venjulegum leiktíma kom sigur markið. Guðmundur Andri Tryggvason var aftur á ferðinni þegar hann setti boltann snyrtilega uppi í fjær hornið eftir sendingu frá Davíð Erni Atlasyni og Víkingar náðu þar forystunni í þriðja sinn í leiknum.

Lítið markvert gerðist á síðasta stundarfjórðungnum, Breiðablik pressaði stíft en án árangurs og það voru Víkingar sem fögnuðu innilega þremur stigum.

Af hverju vann Víkingur? 

Þeir nýttu færin sín og stigu upp á mikilvægum mómentum í leiknum. Breiðablik var heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum, þeir voru meira með boltann og áttu miðsvæðið í leiknum en það voru heimamenn sem nýttu sín færi og unnu þar með leikinn. 

Hverjir stóðu upp úr?

Guðmundur Andri Tryggvason var klárlega maður leiksins, lagði upp fyrsta markið og skoraði seinni tvö. Hann var vinnusamur og hans einstaklings framtak virkilega gott í leiknum. Svo átti Sölvi Geir Ottesen virkilega góðan leik í vörninni hjá Víkingum. 

Í liði Blikanna áttu þeir Viktor Karl Einarsson og Höskuldur Gunnlaugsson góðan leik sem og Karl Friðleifur Gunnarsson sem átti góða innkomu í byrjunarliðið í dag. 

Hvað gekk illa? 

Það voru ansi mikilvægar þessar tvær mínútur í leiknum þar sem þrjú mörk voru skoruð og liðin hreinlega ekki vakandi í vörninni en heilt yfir var þetta ágætis leikur hjá báðum liðum. Breiðablik heldur bara áfram að vera í vandræðum með að skora mörk og þurfa að fara að finna lausn á því vandamáli. 



Hvað er framundan? 

Víkingar fara í Garðabæinn og mæta þar Stjörnunni á meðan Breiðablik fær KA í heimsókn. 

 

Guðjón Pétur: Einn af okkar bestu leikjum í sumar

Það er grátlegt að taka ekki stigin þrjú sagði Guðjón Pétur Lýðsson, leikmaður Breiðabliks

„Þetta var einn af þessum dögum þar sem við vorum að spila vel og sköpuðum fullt af góðum færum og bara grátlegt að því fylgi ekki þrjú stig“

Breiðablik fékk mark í bakið strax eftir að hafa jafnað leikinn í stöðunni 1-1. Guðjón Pétur segir að þeir nagi sig að sjálfsögðu í handabakið að hafa ekki varist því betur en þeir þurfi að vinna í þessu

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna í og laga. Á móti kemur að það var skemmtilegt að sjá unga leikmenn sem voru að spila einn af sínum fyrstu leikjum með liðinu í sumar sem voru að sýna flotta takta. Þó að menn geri mistök í byrjun að þá er það bara áfram gakk og menn verða bara betri fyrir vikið“

„Mér fannst við spila einn af okkar bestu leikjum í sumar en fengum samt á okkur þrjú mörk. Þetta var bara einbeitingaskortur á mikilvægum mómentum en við skorum tvö góð mörk í dag og ég ætla að reyna að horfa bara í það jákvæða“

Guðjón segir að Breiðablik eigi ennþá góða möguleika á Íslandsmeistaratitlinum þrátt fyrir að vera 10 stigum á eftir KR. Hann segir að KR sé vissulega í bílstjórasætinu en hefur trú á sínu liði og að þeir þurfi fyrst og fremst að fara að vinna sína leiki

„Það hefur verið markaþurrð hjá okkur og framherjinn okkar skoraði í dag, það er jákvætt. Við erum með gott lið og þurfum að halda áfram að keyra á þetta. Það er nóg eftir af þessu móti, KR er auðvitað í bílstjórasætinu og það er þeirra að tapa því niður en á meðan þurfum við að vinna okkar leiki.“ sagði Guðjón Pétur að lokum 

 

Arnar Gunnlaugsson var ánægður með stigin þrjúvísir/daníel þór
Arnar: Ætla ekki að bulla um hvað við vorum æðislegir því við vorum það ekki

„Við vorum lélegir í kvöld. Blikarnir settu okkur undir mikla pressu og við vorum að ströggla nær allan leikinn,“ voru fyrstu viðbrögð Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkinga. 

Víkingur komust 1-0 yfir og 2-1 en í tvígang komu Blikarnir til baka. Guðmundur Andri Tryggvason tryggði svo Blikunum sigurinn.

„Eftir úrslitin í gær þá voru við smá þjakaðir af spennu og það voru bara einstaklings gæði í leiknum sem skiluðu sigrinum. Guðmundur Andri með tvö frábær mörk.“

„Ég verð að vera heiðarlegur við mína leikmenn og ætla ekki að bulla eitthvað um það hvað við vorum æðislegir í kvöld því að við vorum það ekki.“

Þrjú mörk litu dagsins ljós á tveimur mínútum í siðari hálfleik og Arnar var ekki parsáttur með það.

„Auðvitað er ég ánægður með sigurinn og við sýndum karakter en við gerðum nánast allt til þess að glutra forystunni niður, þeir skora sekúndu á eftir okkur. Um leið og þú skorar þá viltu fá fókus á liði, þú vilt að þínir reynslumestu menn segi kjúklingunum til.“ 

„Ég á bara við að í svona leikjum ertu að læra svo mikið, þú ert að stíga upp sem leikmaður, verður að þora að fá boltann og mátt ekki vera hræddur við að gera mistök. Við vorum svolítið inní okkur og ólíkir sjálfum okkur í öllum aðgerðum.“

„Enn við vorum bara ekki góðir, bara sorry. Ég gæti óskað þess að ég gæti sagt annað en ég er bara fullkomnisti og vill vinna leikinn á réttann hátt, við vorum lélega liðið í kvöld en unnum, þetta var skrítin fótboltaleikur.“

„Við unnum auðvitað leikinn og skoruðum þrjú góð mörk, en ég hef áhyggjur af því hvað við vorum daprir í kvöld.“

Með sigrinum lyftu Víkingar sér úr fallsæti en einungis sex stigum munar á liðinu í ellefta sæti og þriðja sæti.

„Það stefnir í met stigafjölda hjá því liði sem er að fara að falla og það er líka, eins fáranlega og það hljómar, stutt í Evrópusætið. Við erum í hörkubaráttu við það að falla, komast í Evrópusæti og svo erum við í undanúrslitum í bikar líka.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira