Íslenski boltinn

Bara eitt lið í Pepsi Max með lélegri markatölu en FH-liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, hefur þurft að bíða í 200 mínútur eftir marki.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, hefur þurft að bíða í 200 mínútur eftir marki. Vísir/Daníel
Tvö hundruð mínútur án marks og tveir stigalausir leikir í röð. Það er þungskýjað yfir Kaplakrika þessa dagana.

FH-ingar hafa aðeins unnið tvo af síðustu átta leikjum sínum í Pepsi Max deild karla og eru stigalausir og markalausir í síðustu tveimur leikjum.

Markatala FH-inga er nú þrjú mörk í mínus eftir að hafa tapað 2-0 á móti HK og 1-0 á móti KA. Það eru bara Eyjamenn sem eru með lakari markatölu en Hafnarfjarðaliðið. Markatala ÍBV er -23.

FH-liðið er með jafnslaka markatölu og lið KA og Víkingur. Víkingar gætu dottið neðar tapi þeir á móti Breiðabliki í kvöld.

FH-ingar hafa tapað tveimur leikjum í röð og það án þess að skora mark. Síðasta mark liðsins kom í sigurleik í Vestmannaeyjum 13. júlí síðastliðinn. FH-liðið er því búið að spila í 200 mínútur án þess að skora mark í Pepsi Max deildinni. 20 mínútur á mói ÍBV, 90 mínútur á móti HK og 90 mínútur á móti KA. Allir þessir leikir hafa reyndar verið á útivelli.

Síðustu tvö mörk FH-liðsins skoraði Steven Lennon og komu þau bæði á móti lélegasta liði deildarinnar. Reyndar hafa tveir síðustu sigurleikir liðsins og þeir eru frá 20. maí komið á móti liðunum sem sitja nú í fallsæti deildarinnar eða ÍBV og Víkingur.

FH-ingar hafa alls náð í 8 stig af 24 mögulegum út úr síðustu átta leikjum sínum og það eru bara KA (7), ÍA (6) og ÍBV (3) sem hafa fengið færri stig á þessum sama tíma. Markatala FH-liðsins í þessum átta leikjum eru fimm mörk í mínus eða 7-12.

Fyrir vikið er FH-liðið aðeins í sjöunda sæti og gæti meira að segja dottið niður í það áttunda takist HK að vinna Stjörnuna í Kórnum í kvöld. Vinni Víkingar ennfremur Blika þá verða aðeins þrjú stig niður í fallsæti.



Lélegasta markatalan í Pepsi Max deild karla eftir leikina 28. júlí:

-23

ÍBV (11-34)

-3

FH (18-21)

Víkingur (18-21)

KA (19-22)

-2

Fylkir (23-25)

-1

Grindavík (10-11)

+1

HK (17-16)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×