Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Fjórða markið sem er tekið af Guðmundi Steini í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Páll var óánægður með dómgæsluna.
Rúnar Páll var óánægður með dómgæsluna. vísir/bára
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var afar ósáttur við dómgæsluna í jafntefli sinna manna gegn HK, 1-1, í Kórnum í kvöld.

Stjörnumenn voru ósáttir við að mark hafi verið dæmt af Guðmundi Steini Hafsteinssyni á 78. mínútu. Þeir vildu einnig meina að Guðmundur Steinn hefði átt að fá víti tveimur mínútum fyrir leikslok. Rúnari Páli var heitt í hamsi eftir leik.

„Auðvitað vill maður alltaf vinna og við vorum ekkert langt frá því. Við mættum mjög sterku og skemmtilegu liði HK. Mér fannst við vera með yfirhöndina en vorum klaufar að fá á okkur mark eftir innkast. Ég er drullufúll yfir því. Það var einbeitingarleysi og svona á ekki að geta gerst,“ sagði Rúnar Páll í samtali við Vísi.

Hann lét Guðmund Ársæl Guðmundsson og aðstoðarmenn hans heyra það fyrir þeirra frammistöðu í leiknum.

„Svo fengum við dóma á móti okkur sem voru óskiljanlegir. Að það skuli vera hægt að bjóða upp á svona vitleysu. Þetta er fjórða markið sem er tekið af Guðmundi í sumar. Fyrir mér var þetta fullkomlega löglegt mark. Svo áttum við að fá víti og það er galið að hann skuli ekki dæma. Þetta var skelfilegt og ég vona að ég hafi rétt fyrir mér. Frá bekknum séð var þetta fáránlegt.“

Stjörnumenn réðu ferðinni lengst af í fyrri hálfleik en fengu á sig mark undir lok hans sem Rúnar Páll var óhress með.

„Við vorum með mikla yfirburði í fyrri hálfleik og hefðum getað skorað fleiri mörk miðað við allar sóknirnar. Síðan fengum við frábært færi þegar Hilmar [Árni Halldórsson] skaut í slá. Hann hefur margsinnis skorað úr svona færum. Það féll ekki með okkur, ekki frekar en mikilvægir dómar,“ sagði Rúnar Páll.

Félagaskiptaglugganum verður lokað á miðvikudaginn. Rúnar Páll segist vera sáttur með leikmannahóp sinn og engar breytingar verði á honum.

„Nei, við gerum ekki neitt. Við erum fínir eins og við erum,“ sagði þjálfarinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×