Enski boltinn

Frændi Steven Gerrard með Liverpool til Bandaríkjanna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bobby Duncan er átján ára gamall framherji
Bobby Duncan er átján ára gamall framherji vísir/getty
Bobby Duncan, ungur frændi Steven Gerrard, er í hópi Liverpool sem ferðast til Bandaríkjanna í æfingaferð.

Jurgen Klopp getur ekki tekið alla leikmenn sína með til Bandaríkjanna þar sem margir þeirra fengu lengra sumarfrí. 

Sadio Mane, Mohamed Salah, Naby Keita, Alisson Becker og Roberto Firmino voru allir með landsliðum sínum í Afríkukeppninni og Copa America og fá því lengra sumarfrí.

Xherdan Shaqiri er meiddur á kálfa og verður ekki með Liverpool næstu vikurnar.

Aðeins sextán leikmenn mættu til æfinga eftir sumarfrí í byrjun vikunnar. Því ákvað Klopp að taka unga leikmenn úr akademíu Liverpool inn í æfingahóp aðalliðsins.

Duncan og Paul Glatzel fá báðir að fara til Bandaríkjanna en þeir skoruðu 60 mörk samanlagt fyrir U18 lið Liverpool á síðasta tímabili.

„Það er erfitt að fara beint inn í aðalliðið því við erum með mjög sterkan hóp. Þessir strákar eru framtíðin okkar ef þeir vilja vera það, en það er spennandi fyrir þá að koma með okkur í þessa æfingaferð,“ sagði Klopp.

„Sóknarlína okkar frá síðasta tímabili kemur seint úr fríi svo þeir munu fá leiktíma. Ekki bara gegn Tranmere heldur líka í Bandaríkjunum gegn Borussia Dortmund og hinum liðunum.“

„Þegar þú ert hjá félaginu þá munu dyrnar inn í aðalliðið opnast. En þeir þurfa að fara í gegnum dyrnar sjálfir, við opnum bara hurðina en ýtum þér ekki í gegn.“

Liverpool mætir Tranmere og Bradford í tveimur æfingaleikjum í þessari viku áður en liðið heldur til Bandaríkjanna. Þar mæta þeir Dortmund, Sevilla og Sporting.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×