Enski boltinn

Mata útskýrir afhverju hann skrifaði undir nýjan samning við Manchester United

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mata á æfingu með United í Ástralíu.
Mata á æfingu með United í Ástralíu. vísir/getty
Spænski miðjumaðurinn, Juan Mata, skrifaði um miðjan síðasta mánuð undir nýjan þriggja ára samning við Manchester United.

Hann segir í samtali við MUTV, sjónvarpsstöð United, að það séu margar ástæður fyrir því að hann skrifaði undir samninginn en sú helsta sé að United sé eitt af stærstu félögum Evrópu.

„Það voru margir hlutir. Sú fyrsta að það er eitthvað sérstakt, einstakt að vera hluti af þessu félagi,“ sagði Spánverjinn í samtali við sjónvarpsstöð félagsins.

„Við vitum að það eru þrjú eða fjögur stór félög í Evrópu og United er eitt af þeim. Þrátt fyrir að við séum ekki á okkar besta stað í augnablikinu, þá er sú tilfinning að vakna sem rauður djöfull svo ótrúleg að ég vildi halda því áfram.“







Mata gekk í raðir United frá Chelsea árið 2014 og hefur síðan þá unnið Evrópudeildina, enska bikarinn og deildarbikarinn með þeim rauðklæddu. Gengi liðsins í deildinni hefur þó ekki verið up á marga fiska síðustu tímabil.

„Ég vildi vera áfram og halda áfram að gefa það besta af mér til þess að koma United aftur þar sem það á heima. Ég hef verið hér í meira en fimm ár og hef séð hversu magnaðir stuðningsmennirnir eru, einnig á erfiðum tímum.“

„Ég hef verið hér á erfiðum augnablikum en mig hlakkar til að vera með á frábærum augnablikum. Ég vildi vera áfram. Ég vildi halda tryggð við félagið og njóta þess að spila í treyjunni og gera mitt besta,“ sagði Spánverjinn geðþekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×