Erlent

Grafa lík kafteins gegn vilja fjölskyldu hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Móðir Acosta þegar hún kom að bera kennsl á lík hans í höfuðborginni Caracas í dag.
Móðir Acosta þegar hún kom að bera kennsl á lík hans í höfuðborginni Caracas í dag. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Venesúela grófu lík kafteins í sjóhernum sem lést í varðhaldi í síðasta mánuði, þvert á óskir ættingja hans. Fjölskylda kafteinsins krefst sjálfstæðrar krufningar á líki hans og heldur því fram að hann hafi verið pyntaður til bana.

Rafael Acosta, kafteinn í venesúelska sjóhernum, var handtekinn 21. júní og sakaður um að hafa tekið þátt í valdaránstilraun gegn Nicolas Maduro, forseta. Hann lést viku síðar í haldi herleyniþjónustunnar. Lögmenn fjölskyldunnar fullyrða að lík hans hafi borðið þess merki að gengið hafi verið í skrokk á honum.

Ríkisstjórn Maduro hefur ekki tjáð sig um ásakanir um að Acosta hafi verið pyntaður í varðhaldinu. Lögmaður Acosta-fjölskyldunnar segist túlka ákvörðun stjórnvalda um að grafa lík hans sem viðurkenningu á að þau hafi valdið dauða hans, að því er segir í frétt Reuters.

Niðurstaða opinberrar krufningar á líki Acosta í Venesúela var sögð hafa leitt í ljós að hann hafi látist af völdum fjölda áverka. Ekkja hans vill að stjórnvöld skili líki hans og hefur beðið Sameinuðu þjóðirnar um að rannsaka dauða hans.


Tengdar fréttir

SÞ segja þörf á rannsókn

Það er mikilvægt að varpa ljósi á dauða venesúelska sjóherskafteinsins Rafaels Acosta, sem lést í haldi venesúelskrar lögreglu á laugardag, og draga hina ábyrgu í málinu fyrir dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×